Rannsaka stórfelld fjársvik - sex í gæsluvarðhaldi

mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú umfangsmikið fjársvikamál, en málið varðar stórfelld brot á virðisaukaskattsskilum og svikum út úr skattkerfinu. Lögreglan hefur handtekið níu einstaklinga í tengslum við málið og er búið að úrskurða sex þeirra í gæsluvarðhald. Þremur hefur verið sleppt.

Rannsókn málsins, sem er á forræði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með aðkomu skattrannsóknarstjóra, er á viðkvæmu stigi. 

Einstaklingarnir, sem eru allt Íslendingar, voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar í gær og í fyrradag. Lögreglan framkvæmdi húsleitir í tengslum við allar handtökurnar, skv. áreiðanlegum heimildum mbl.is.

Þremur hefur verið sleppt og voru sex úrskurðaðir í gæsluvarðhald í gær, eða allt frá fimm dögum til tveggja vikna gæsluvarðhalds. 

Hvorki hafa fengist upplýsingar um hversu háar fjárhæðir er að ræða né hvaða fyrirtæki verið er að rannsaka í tengslum við málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert