Skiluðu reikningum fyrir 1,3 milljarða

Grunur leikur á að sviknar hafi verið 270 milljónir úr …
Grunur leikur á að sviknar hafi verið 270 milljónir úr ríkissjóði. mbl.is/Golli

Tvö einkahlutafélög skiluðu inn reikningum samtals fyrir um 1,3 milljarða króna og fengu endurgreiddan virðisaukaskatt upp á um 270 milljónir kr. í þeim fjársvikamálum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með til rannsóknar. Ekkert mun hafa verið framkvæmt.

Einn sexmenninganna sem úrskurðaður hefur verið í gæsluvarðhald, grunaður um aðild að málinu, er starfsmaður Ríkisskattstjóra. Lögreglan handtók alls níu einstaklinga vegna rannsóknar á meintum virðisaukaskattssvikum tveggja einkahlutafélaga.

Rannsóknin beinist að því hvernig tekist hafi að fá virðisaukaskattinn greiddan út vegna framkvæmda sem ekki var farið í. Hún er á frumstigi, samkvæmt upplýsingum lögreglu.

Fyrirtæki þurfa að sækja sérstaklega um að fá innskatt endurgreiddan vegna framkvæmda sem ætlaðar eru til öflunar tekna sem þá verður skilað virðisaukaskatti af þegar rekstur hefst. Þannig er hægt að fá endurgreiddan virðisaukaskatt vegna framkvæmda við atvinnuhúsnæði, eins og raunin er í þessu tilviki. Skila þarf inn reikningum fyrir byggingarkostnaði. Lögreglan telur að í þessum tilvikum hafi ekkert verið framkvæmt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert