Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, hyggst mæta á þingflokksfund Samfylkingarinnar í kvöld.
Fundurinn átti að vera í gær en var frestað um sólarhring.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir að um óformlegan fund sé að ræða en Ingibjörgu sé með honum gefinn kostur á að útskýra sín sjónarmið í ljósi skýrslu þingmannanefndar um viðbrögð við rannsóknarskýrslunni um bankahrunið.
Fjórir fyrrum ráðherrar verða dregnir fyrir Landsdóm nái þingsályktun þess efnis fram að ganga. Þau eru Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson.
Öllum ráðherrunum fyrrverandi verður boðið að eiga fund með þingflokknum.