Vextir geta orðið þungur baggi

Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara.
Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldara. mbl.is/Árni Sæberg

Umboðsmaður skuld­ara tel­ur að niðurstaða Hæsta­rétt­ar í bíla­lána­mál­inu sé ekki sú hag­stæðasta fyr­ir skuld­ara. Vext­ir lán­anna geti reynst þeim afar þung­ur baggi.

Ásta S. Helga­dótt­ir, umboðsmaður skuld­ara, sendi frá sér yf­ir­lýs­ingu, eft­ir að dóm­ur Hæsta­rétt­ar lá fyr­ir. „Það ligg­ur fyr­ir að í flest­um til­fell­um muni höfuðstóll lána lækka veru­lega frá þeim tíma þegar geng­is­tryggð lán töld­ust lög­mæt en líta verður til þess að sú niðurstaða að vext­ir skuli á hverj­um tíma vera jafn­há­ir lægstu óverðtryggðu vöxt­um Seðlabanka Íslands get­ur reynst skuld­ur­um afar þung­ur baggi. Fer slíkt eft­ir því á hvaða tíma hið ólög­mæta geng­is­tryggða lán var tekið.“

Lægstu óverðtryggðu vext­ir Seðlabanka Íslands eru nú 7,75%, en á tíma­bil­inu frá sept­em­ber 2006 til júní 2009 voru lægstu óverðtryggðu vext­ir frá 15% til 21%. Þessa vexti þurfa sum­ir skuld­ara nú að borga.

Þá seg­ir umboðsmaður skuld­ara að enn standi eft­ir fjöl­marg­ar ósvaraðar spurn­ing­ar, meðal ann­ars hvort farið verði í end­ur­reiknað upp­gjör á þeim lána­samn­ing­um sem töld­ust upp­gerðir að fullu þegar Hæstirétt­ur dæmdi geng­is­trygg­ingu ólög­mæta með tveim­ur dóm­um þann 16. júní sl.  

Umboðsmaður skuld­ara fagn­ar því að óvissu hafi nú verið létt af þúsund­um heim­ila með þess­um for­dæm­is­gef­andi dómi um vexti geng­is­tryggðra lána. „Óviss­an um vexti þess­ara lána hef­ur reynst skuld­ur­um mjög erfið og tafið það mjög að ein­stak­ling­ar í greiðslu­erfiðleik­um geti áttað sig á sinni raun­veru­legu skulda­stöðu og end­ur­skipu­lagt fjár­mál sín í sam­ræmi við hana.“

Umboðsmaður skuld­ara tel­ur já­kvætt að rík­is­stjórn­in stefni að jafn­ræði skuld­ara með lög­gjöf sem nái til allra gengistengdra bíla- og hús­næðislána, óháð orðalagi lána­samn­inga. Þá tel­ur umboðsmaður skuld­ara það jafn­framt já­kvætt að rík­is­stjórn­in stefni að því að mál­um verði flýtt í meðför­um bank­anna.

Nú ligg­ur fyr­ir að mik­il vinna er framund­an varðandi end­urút­reikn­ing lána og tel­ur umboðsmaður eðli­legt að kostnaði við þá vinnu verði ekki velt yfir á skuld­ara, held­ur bor­in af fjár­mála­fyr­ir­tækj­um sem veittu hin ólög­mætu lán.

Umboðsmaður skuld­ara mun fylgj­ast grannt með fram­kvæmd þess­ara mála og leita leiða til að tryggja hags­muni skuld­ara.  

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert