„Samfélaginu hérna blæðir vegna þess að verkefnunum miðar ekkert áfram,“ segir Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði. Hann segist hafa þungar áhyggjur af því dapurlega ástandi sem einkenni Suðurnesin.
Ásmundur hefur sent öllum alþingismönnum, þar á meðal ráðherrunum, bréf þar sem hann lýsir áhyggjum sínum af stöðu mála á Suðurnesjum. Ástæðuna segir hann vera fréttir af fjölda nauðungarsala á Suðurnesjum. Nauðungarsölur á íbúðum á Suðurnesjum séu fimm sinnum fleiri en í meðalári og tíu sinnum fleiri en í Reykjavík miðað við höfðatölu.
Í bréfinu segir Ásmundur að mikilvægt sé að taka höndum saman og vinna af heilum hug, og í sameiningu, að uppbyggingu á Suðurnesjum. Nóg sé af tækifærum en aðeins skorti vilja til framkvæmda.
„Menn þurfa að hætta að berjast um keisarans skegg og hefja framkvæmdir og ég hef fulla trú á að innst inni vilji það allir,“ segir Ásmundur. Mikilvægt sé að þjappa fólki saman og hlúa að samfélaginu.
Í bréfi Ásmundar til þingmanna segir meðal annars:
„Nú er komið að því að athafnir komi í stað orða. Lítum hvert og eitt í eigin barm og sjáum hvað við getum gert til að koma lífi fólksins á Suðurnesjum í eðlilegt horf. Í upphafi skólaársins vakna fleiri börn á Suðurnesjum við angist, kvíða og reiði foreldar sinna í garð okkar sem eigum að gæta hagsmuna samfélagsins og sjá til þess að allir hafi húsaskjól, mat og vinnu. Við höfum brugðist þessum börnum, fjölskyldum þeirra og öllu samfélagin hér suðurfrá.“
...