Fréttaskýring: Yrðu yfirheyrðir og gætu kallað til vitni

Bjarni Benediktsson, þá dómsmálaráðherra, fól Ólafi Jóhannessyni lagaprófessor að endurskoða …
Bjarni Benediktsson, þá dómsmálaráðherra, fól Ólafi Jóhannessyni lagaprófessor að endurskoða lög um landsdóm og ráðherraábyrgð árið 1960. mbl.is/Ólafur K. Magnússon.

Ómögulegt er að segja til um hversu langan tíma málsmeðferð í landsdómi muni taka, fari svo að Alþingi ákveði að ákæra fyrrverandi ráðherra vegna vanrækslu í aðdraganda banka- og efnahagshrunsins árið 2008.

Þó er ljóst að málsmeðferð fyrir landsdómi og rannsókn málsins gegn ráðherrunum muni taka drjúgan tíma, einhverja mánuði hið minnsta, en líklega mun lengur.

Í landsdómi sitja 15 manns, þ. á m. fimm reynslumestu hæstaréttardómararnir. Á meðan þeir sitja réttarhöld í landsdómi geta þeir ekki sinnt öðrum málum og því blasir við að störf réttarins munu eitthvað tefjast.

Hjá Hæstarétti segjast menn ekkert byrjaðir að velta fyrir sér áhrifum þess að landsdómur yrði kallaður saman. Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar, segir að þar bíði menn eftir því að ákvörðun í málinu liggi fyrir, áður en þeir fari nokkuð að huga að undirbúningi. Verði landsdómur kallaður saman bíður það Þorsteins að vera dómritari hans, skv. lögum um landsdóm.

Fimm í saksóknaranefnd

Ákveði Alþingi að höfða mál gegn ráðherra verður það um leið að kjósa saksóknara til að sækja málið. Jafnframt þarf að kjósa fimm manna þingnefnd, saksóknaranefnd, sem á að fylgjast með málinu og vera saksóknara til aðstoðar.

Skilgreining á hlutverki saksóknara Alþingis er að ýmsu leyti ólík þeim fyrirmælum sem saksóknari í hefðbundnu sakamáli fær í lögum um sakamál. Það er t.a.m. ekki saksóknari Alþingis sem ákveður hvernig ákæran hljóðar heldur Alþingi. Alþingi verður að tilgreina nákvæmlega hver kæruatriðin eru og er sókn málsins bundin við þau. Sá sem er ákærður verður aðeins dæmdur fyrir þær sakir sem tilgreindar eru í ályktun Alþingis. Hins vegar er dómurinn ekki bundinn við refsikröfuna sem saksóknarinn gerir.

Í lögum um landsdóm er mælt fyrir um skyldu saksóknara Alþingis til að leita allra fáanlegra sannana fyrir kæruatriðum og gera tillögur til landsdóms um „viðeigandi ráðstafanir til að leiða hið sanna í ljós“. Það sé síðan hlutverk verjanda að draga fram allt sem verða megi hinum ákærða til sýknu eða hagsbóta. Í lögum um sakamál er á hinn bóginn tekið fram að saksóknari verði að horfa bæði til atriða sem horfa til sýknu og sektar.

Yfirheyrt fyrir landsdómi

Eitt helsta gagn saksóknara Alþingis, verði hann skipaður, hlýtur að verða skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og gögn sem hún safnaði. Hugsanlegt mál gegn ráðherrunum verður þó ekki byggt á framburði ráðherranna fyrir nefndinni, því í lögum um rannsóknarnefndina er tekið fram að ekki sé heimilt að nota upplýsingar „sem einstaklingur hefur veitt nefndinni sem sönnunargagn í sakamáli sem höfðað er gegn honum“.

Því þarf að rannsaka málið aftur, að einhverju leyti, en óljóst er hversu viðamikil sú rannsókn þyrfti að vera. Í það minnsta yrði að taka skýrslur af ráðherrunum og þeir yrðu einnig spurðir út í sakarefnið fyrir dómnum. Bæði ráðherrar og saksóknari geta kallað til þau vitni sem þeir kjósa. Ákærðu hafa rétt til að krefjast þess að dómendur víki sæti, þeir eiga að leggja fram greinargerðir og þeir hafa rétt til að fá framlengdan frest til að leggja fram greinargerðir.

Sérstök staða

Lög um landsdóm og lög um ráðherraábyrgð hvíla á 14. grein stjórnarskrárinnar. Þar segir m.a. að ráðherraábyrgð sé ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra og landsdómur dæmir þau mál.

Í greinargerð með lögunum um ráðherraábyrgð frá 1963 segir m.a. að staða ráðherra sé svo sérstæð að þeir geti orðið sekir um það misferli í starfi sem vart eða ekki sé hugsanlegt hjá öðrum opinberum starfsmönnum. „Hinar sérstöku embættisskyldur ráðherra hafa naumast verið hafðar í huga við samningu almennra hegningarlaga. Sýnist því þrátt fyrir allt vera þörf á sérstökum ráðherraábyrgðarlögum, þar sem hegning er lögð við þeim brotum, sem óttast má af ráðherra sérstaklega og ákvæði almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi ná ekki til.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert