Oddvitar Flóahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps reikna báðir með því að sveitarstjórnirnar óski eftir því við umhverfisráðuneytið að aðalskipulag sveitarfélaganna sem gerir ráð fyrir virkjunum í Neðri-Þjórsá verði staðfest í ljósi niðurstöðu héraðsdóms í máli Flóahrepps gegn umhverfisráðherra.
„Ég er ánægður með niðurstöðuna og að hún skuli vera fengin,“ segir Aðalsteinn Sveinsson, oddviti Flóahrepps, þegar leitað er viðbragða hans við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Þar er dæmd ógild ákvörðun umhverfisráðherra um að hafna staðfestingu á breytingu á aðalskipulagi vegna Urriðafossvirkjunar.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir að farið verði yfir niðurstöðuna í ráðuneytinu næstu daga og næstu skref íhuguð. Ekki hefur verið ákveðið hvort dómi héraðsdóms verður áfrýjað til Hæstaréttar.
Skipulagið sem ekki fékkst staðfest nær yfir einn hluta Flóahrepps, það er að segja gamla Villingaholtshrepps. Aðalsteinn segir það slæmt fyrir íbúana að hafa ekki aðalskipulag. „Það er bagalegt hvað þetta hefur tekið langan tíma og hvað búið er að rugla skipulagsmál sveitarfélagsins í langan tíma,“ segir Aðalsteinn.Umhverfisráðherra hafnaði staðfestingu breytinga á aðalskipulagi Flóahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem gerir ráð fyrir virkjunum í Neðri-Þjórsá á þeirri forsendu að Landsvirkjun greiddi kostnað við skipulagsvinnuna.
„Þetta er áfellisdómur yfir stjórnsýslunni,“ segir Gunnar Örn Marteinsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps. „Ég hef alla tíð verið ósáttur við þau rök sem umhverfisráðherra beitti í þessari höfnun sinni. Mér sýnist dómsniðurstaðan vera staðfesting á þeirri skoðun minni,“ segir Gunnar Örn.