Tap íslensku bankanna og erlendra kröfuhafa þeirra mun aukast enn frekar með nýrri lagasetningu stjórnvalda sem mun aftur á móti draga verulega úr skuldsetningu heimilanna.
Þannig hefst umfjöllun Financial Times um þá ákvörðun stjórnvalda að leggja fram frumvarp til laga um að öll bílalán með gengisviðmiðum verði gerð ólögmæt óháð orðalagi samninga. Jafnframt verða gengisbundin húsnæðislán færð yfir í íslenskar krónur og verðtryggð kjör sem lækkar eftirstöðvar lánanna.
Þetta muni hins vegar ekki hafa áhrif á gengislán fyrirtækja sem nema alls 841 milljarði króna samanborið við lán heimilanna sem nema 186 milljörðum króna, samkvæmt frétt FT.
Í blaðinu er fjallað um þann ótta sem hafi ríkt um að stjórnvöld á Íslandi þyrftu að láta bankana falla í annað skiptið ef það hefðu verið lán til fyrirtækja sem Hæstiréttur hefði dæmt um. Eigendur skuldabréfa hafi andað léttar þegar dómur Hæstaréttar lá fyrir.
Enn frekara tap íslensku bankanna hefði komið sér illa fyrir útlendu kröfuhafana þar á meðal Royal Bank of Scotland og aðrar evrópskar og bandarískar stofnanir sem enn eru að reyna að bjarga eignum sínum eftir hrunið árið 2008, samkvæmt frétt FT.
Bloomberg fréttastofan og Reuters fréttastofan fjalla einnig um nýtt frumvarp til laga um gengislánin og dóm Hæstaréttar í dag.