Hagsmunasamtök heimilanna lýsa undrun sinni og vonbrigðum með dóm Hæstaréttar sem kveðinn var upp í gær, í svo kölluðu bílalánamáli. Telja samtökin það ekki standast neytendaréttartilskipun Evrópusambandsins að dæma samningsvexti gengistryggðra lána ógilda og láta mun óhagstæðari vaxtakjör koma í staðinn í skjóli þess að vaxtalög geri ráð fyrir því.
„Nauðsynlegt er að hafa í huga að með því að velja umrætt lánafyrirkomulag voru lántakendur að forðast þá vexti sem nú eiga að gilda. Ekki má líta framhjá því að vextirnir sem um ræðir urðu hærri en efni stóðu til vegna fjárglæfra fjármálafyrirtækja og eigenda þeirra, meðal annars Exista eiganda Lýsingar.
Þessir vextir gera ekkert annað en að skipta einum forsendubresti út fyrir annan og eru á allan hátt mjög óhagstæðir lántökum. Dómurinn kýs að líta framhjá þessum málsástæðum sem og öðrum rökum og er það miður," segir í yfirlýsingu frá HH.