„Þó að einhverjir verði ekki alveg ánægðir af því að þeir fengu ekki jafn mikið og þeir vildu þá er það bara lífsins gangur. En ég held að þegar frá líði muni þetta létta okkur róðurinn.“
Þannig mælti Már Guðmundsson seðlabankastjóri á blaðamannafundi í gær um dóm Hæstaréttar um vaxtakjör á gengisbundnu bílaláni, en ekki voru allir á eitt sáttir í kjölfar úrskurðarins, að því er fram kemur í ítarlegri umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Már segir að lamað bankakerfi hjálpi engum og niðurstaðan sé góð að því leyti að horfur hvað fjármálastöðugleika varði séu góðar. Lausafjárstaða bankanna sé til dæmis almennt góð. Þeir séu aukinheldur enn á bak við höft, og því engin hætta á því að áhlaup verði gert á þá erlendis frá, líkt og gerðist síðla árs 2008. Með því að aflétta hinni miklu óvissu sem ríkt hefur um fjárhagsstöðu og styrk bankakerfisins sé hins vegar verið að skapa skilyrði til þess að hefja vinnu við afnám þeirra hafta sem verið hafa á fjármagnshreyfingum.