Þungbær skylda

Atli Gíslason á Alþingi.
Atli Gíslason á Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég vil minna þingmenn á þá þungbæru skyldu, sem á okkur hvílir," sagði Atli Gíslason, þingmaður VG, þegar hann mælti fyrir þingsályktunartillögu um málshöfðun á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum.  „Þetta er dapurlegasta og erfiðasta verk sem ég farið í," sagði Atli.

„Við höfum tekið þetta sem miklu alvörumáli. En samkvæmt stjórnarskránni getur Alþingi kært ráðherra fyrir embættisverk," sagði Atli. „Stjórnarskráin felur þannig Alþingi að taka afstöðu til þess hvort kalla eigi ráðherra til ábyrgðar fyrir embættisrekstur þeirra á grundvelli laga um ráðherraábyrgð hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þetta eru lögbundin skyldustörf okkar."

Hann sagði, að eftir ýtarlega umfjöllun þingmannanefndar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, hefði það orðið niðurstaðan að leggja til grundvallar gildandi lög um ráðherraábyrgð og landsdóm en leggja ekki til að lögunum yrði breytt.

Meirihluti þingmannanefndarinnar stendur að þingsályktunartillögu um málshöfðun á hendur þeirra Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gíslasdóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, Árna M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra og Björgvin G. Sigurðssyni, fyrrverandi viðskiptaráðherra. 

Atli lýsti störfum nefndarinnar og sagði meðal annars, að fimm sérfræðingar hefðu verið kallaðir til, samið drög að þingsályktunartillögunni og síðan yfirfarið þau. Sagði hann að fjórir af fimm sérfræðingum hefðu á endanum talið það sem komið hefði fram í málinu væri nægilegt og líklegt til sakfellis og uppfyllti réttarfarskröfur en sá fimmti hefði verið ósammála. Sérfræðingarnir hefðu hins vegar lagt áherslu á að þeir hefðu veitt ráðgjöf en þingmannanefndin yrði að taka ákvörðun. 

Fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni, að sérfræðingar, sem störfuðu með nefndinni, voru Bogi Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, Bryndís Hlöðversdóttir aðstoðarrektor, Jónatan Þórmundsson, prófessor, Ragnhildur Helgadóttir, prófessor, Róbert R. Spanó, prófessor og Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka