Umræða um ákærur að hefjast

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg

Umræða er að hefjast á Alþingi um þingsályktunartillögur, sem gera ráð fyrir því að mál verði höfðað fyrir landsdómi á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum vegna saknæmrar vanrækslu á embættisskyldum sínum. Krafa kom fram á Alþingi að þingmenn fái aðgang að öllum gögnum þingmannanefndarinnar.

Um er að ræða tvær tillögur, önnur frá meirihluta þingmannanefndar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, en samkvæmt henni verður höfðað mál á hendur fjórum fyrrum ráðherrum. Hin tillagan er frá fulltrúum Samfylkingarinnar í nefndinni um að höfðað verði mál á hendur þremur fyrrum ráðherrum.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði í upphafi fundar að hún hafi óskað eftir því að mælt yrði fyrir tillögunum sameiginlega en andmæli komu fram við því.

Áður en umræðan hófst fór fram löng umræða um fundarstjórn forseta í kjölfar þess að Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, krafðist þess að þingmenn fengju aðgang að öllum gögnum og minnispunktum, sem þingmannanefndin hefði haft undir höndum og notað þegar tillögurnar um málshöfðun á hendur ráðherrum voru samdar. 

Ýmsir urðu til að taka undir þessa kröfu, þar á meðal  Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar.

Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, sagði hins vegar að þingmannanefndin hefði m.a. sett sér verklagsreglur, þar sem segði að gögn sem varðar ráðherraábyrgð sé bundin trúnaði. Meðal annars hefði verið kallað eftir gögnum frá sérfræðingum og að minnsta kosti tveir þeirra hefðu ekki samþykkt að vinnugögn þeirra yrðu lögð fram opinberlega.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði óþolandi að hópur þingmanna hefði upplýsingaforskot á aðra þingmenn. „Ég mun ekki sætta mig við það," sagði hann.

Magnús Orri Schram, sem situr í þingmannanefndinni fyrir hönd Samfylkingarinnar, sagði að enginn vilji væri fyrir því í nefndinni að halda gögnum fyrir öðrum þingmönnum. 

Ólöf Nordal sagði að þingmannanefndin gæti ekki skýlt sér á bak við verkfallsreglur. Meirihluti þingmanna væri eindregið þeirrar skoðunar að birta eigi gögnin og ekki sé hægt að hefja umræðuna án þess að gögnin lægju fyrir.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir upplýsti að þingmannanefndin muni halda fund í hádeginu og einnig muni forseti og þingflokksformenn þingsins ræða málið á fundi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert