Vilja sérstaka Icesave-rannsókn

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram breytingartillögu við þingályktunartillögu þingmannanefndar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Vilja þingmennirnir að sérstök rannsóknarnefnd verði skipuð til að rannsaka embættisfærslur og ákvarðanir íslenskra stjórnvalda og samskipti þeirra við bresk og hollensk stjórnvöld vegna Icesave-málsins.

Samkvæmt tillögunni á rannsóknarnefndin að leggja mat á hvort einstakir ráðherrar eða embættismenn á þeirra vegum hafi fylgt þeim lagareglum sem um störf þeirra gilda, brotið starfsskyldur sínar eða gerst sekir um mistök eða vanrækslu í hagsmunagæslu fyrir íslenska ríkið og íslensku þjóðina og eftir atvikum leggja mat á hverjir bera á þeim ábyrgð. 

Þá hafa 9 þingmenn úr öllum flokkum nema Framsóknarflokki lagt fram breytingartillögu um að sjálfstæð og óháð rannsókn fari fram á starfsemi Íbúðalánasjóðs frá aðdraganda breytinganna á fjármögnun og lánareglum Íbúðalánasjóðs sem hrint var í framkvæmd á árinu 2004. Í kjölfar þess fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi Íbúðalánasjóðs.

Loks hafa þingmenn Hreyfingarinnar lagt fram tillögu um að gerð verði stjórnsýsluúttekt á forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti og viðskiptaráðuneyti og starfsháttum þeirra frá ársbyrjun 2007 til loka september 2010. Úttektin taki sérstaklega til samskipta við önnur ráðuneyti og stofnanir, ákvarðana sem teknar voru í viðkomandi ráðuneytum á tímabilinu og atburða sem tengjast falli bankanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka