Ísafjarðarbær tekur 30 milljóna lán

Frá Ísafirði
Frá Ísafirði Ómar Óskarsson

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í fyrradag að taka lán hjá Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 29,7 milljónir kr. Lánið fer til að gera upp eftirstöðvar af skuldastýringu sem sveitarfélagið var með hjá bankanum. Að sögn Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, er einn af stærstu gjaldaliðum bæjarins vextir af lánum bæjarins.

Samstæða sveitarfélagsins skuldaði um síðustu áramót um fjóra milljarða króna í vaxtaberandi skuldir við lánastofnanir, þetta kemur fram á vef Bæjarins besta.

„Eitt af þeim verkefnum sem stjórnendur sveitarfélagsins standa frammi fyrir er því að lágmarka þá upphæð sem fellur á bæinn í formi vaxta að teknu tilliti til áhættu. Sveitarfélagið hefur notið góðra kjara í lánsviðskiptum en lánin er tekin til langs tíma og kostnaðarsamt er að endurfjármagna þau eða breyta skilmálum, í hvert skipti sem betri lánskjör bjóðast á markaði,“ segir Daníel.

„Því hafa fyrirtæki, lífeyrissjóðir, íslenska ríkið og sveitarfélög nýtt sér svokallaða skuldastýringu í formi afleiðna til að stýra skuldum sínum. Með þessum afleiðum er skilmálum skuldabréfa m.a. breytt úr föstum vöxtum í breytilega, úr íslenskum krónum í erlendar myntir og svo framvegis. Ísafjarðarbær nýtti sér um árabil s.k. skuldastýringu hjá Landsbanka Íslands h.f. Á árunum 2004 til 2007 gengu þessi viðskipti mjög vel. Samanlagður útgreiddur hagnaður var vel á þriðja tug milljóna. Þegar að Landsbankinn fór í þrot í árslok 2008 gjaldfelldi hann alla afleiðusamninga viðskiptavina sinna. Þeir samningar sem þá stóðu opnir á Ísafjaðarbæ voru með neikvæða stöðu sem gerð er upp með umræddu láni frá bankanum.“

Að sögn Daníels er tap sveitarfélagins af þessum tilteknu viðskiptum er því um 7 m.kr.

„Hinsvegar bera að varast að horfa á þessi viðskipti ein og sér enda hluti af skuldastýringu alls lánasafns sveitarfélagsins sem eins og áður sagði er um 4 ma. kr. Jafnframt er rétt að taka fram að þessum viðskiptum var ávalt getið í ársreikningum bæjarins og s.k. Áhættustýringarnefnd tók ákvörðun um einstakar aðgerðir.“

Landsbankinn.
Landsbankinn. hag / Haraldur Guðjónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka