Lög um landsdóm voru upphaflega hugsuð sem leið til að hafa hemil á þjóðhöfðingjanum. Rætur þessara laga byggjast á því að þingið vildi hafa í lögum einhverja leið til að koma ráðherrum frá völdum sem því líkaði ekki við. Þetta segir Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Lög um landsdóm eru fyrst sett árið 1905, en ákvæði um dóminn er að finna í stjórnarskrá frá árinu 1903. Guðmundur sagði að þegar Ísland fékk heimastjórn árið 1904 hefði verið ákveðið að setja lög um þann eina ráðherra sem þá var í landinu. Fyrirmyndin hefði verið ríkisdómur í Danmörku en landsdómur hefði verið talsvert öðruvísi skipaður en ríkisdómur þótt hlutverk hans hafi verið svipað.
Guðmundur sagði að reglur um skipan landsdóms í þessum fyrstu lögum hefðu verið mjög einkennilegar. Í dómnum sátu dómarar í landsyfirrétti, þrír elstu lögfræðingar á Íslandi og 72 menn sem kosnir voru af sýslunefndum og bæjarfélögum. Síðan var hægt að ryðja úr dómnum eftir ákveðnum reglum. „Þetta voru mjög einkennilegar reglur. Reglurnar gerðu það að verkum að hann smám saman hverfur úr sögunni og er raunar ekki skipaður um árabil.
Árið 1962 er ákveðið að semja ný lög um landsdóm vegna þess að ákvæði um hann eru í stjórnarskránni. Mönnum finnst að þess vegna verði þessi dómur að vera til. Lögunum er því breytt, fyrst og fremst til að gera reglurnar um skipan dómsins skiljanlegri og framkvæmanlegri.
Það er alveg greinilegt af umræðunum um frumvarpið árið 1962 að mönnum finnst þetta eiginlega vera úrelt. Bjarni Benediktsson, þáverandi dómsmálaráðherra, segir að þessir dómstólar, sem eru á þeim tíma til víðast hvar í Evrópu og sjálfsagt ennþá, séu upphaflega hugsaðir til að hafa hemil á þjóðhöfðingjanum. Í stjórnarskránni er það formlega séð forsetinn sem skipar framkvæmdavaldið. Þetta hafði verið virkt í Evrópu víðast hvar alveg fram undir lok 19. aldar. Þetta var því leið löggjafarvaldsins til að hafa hemil á framkvæmdavaldinu.
Bjarni segir síðan að nú sé framkvæmdavaldið komið undir löggjafarvaldið, meirihluti Alþingis skipi framkvæmdavaldið og því sé ekki nein sérstök þörf fyrir þetta lengur. Þetta er hins vegar í stjórnarskrá og því er landsdómur áfram skipaður.“
Guðmundur sagði að segja mætti að Bjarni og Ólafur Jóhannesson, sem samdi lögin um landsdóm og ráðherraábyrgð, hefðu litið landsdóm sömu augum og neitunarvald forseta. Þetta væri eins konar neyðarhemill sem þeir reiknuðu ekki með að yrði notaður.
Í umræðunum um landsdóm árið 1962 segir Bjarni að það séu tvær aðalleiðir til að dæma ráðherra. Annar vegar að það sé samþykkt vantraust á ráðherra á Alþingi og hann missi þar með embættið. Hins vegar ef þeir brjóta landslög þá fari málið fyrir almenna dómstóla. Guðmundur sagði að í umræðunum 1962 hefðu þingmenn ekki reynt að lýsa því hvernig þeir sæju fyrir sér að landsdómur kæmi til með að starfa.