Óvarlegt að tala svona

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst einkennilegt að fjármálaráðherra skuli hafa ákveðið að tala eins og hann gerði við hollenska fjölmiðla á þessum tímapunkti,“ segir Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Tilefnið er ummæli Steingríms J. Sigfússonar um Icesave í viðtali við hollenskt dagblað.

Fjármálaráðherra sagði í samtali við De Telegraaf að Hollendingar hafi ekkert að óttast í Icesave-deilunni. Ísland muni greiða hollenskum sparifjáreigendum það fé sem þeir töpuðu vegna Icesave-reikninganna.

Ólöf telur þetta óheppilegt í ljósi þess að einhverjar viðræður eru í gangi við Hollendinga og Breta og ekki síst vegna þess að stjórnvöld eru í samskiptum við ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, vegna málsins og Íslendingar þurfi að halda sjónarmiðum sínum á lofti, um að ekki sé ríkisábyrgð á þessum reikningum. 

„Ég tel það óvarlegt að lofa Hollendingum hinu og þessu og auðvelt að misskilja það,“ segir Ólöf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert