Skera niður um 450 milljónir

Úr Reykjanesbæ.
Úr Reykjanesbæ. mbl.is/ÞÖK

Stjórnendur Reykjanesbæjar eru að undirbúa niðurskurð kostnaðar og hagræðingu. Meðal annars er rætt við starfsfólk um lækkun starfshlutfalls og þar með lækkun launa, og styttingu afgreiðslutíma þjónustustofnana.

Gert var ráð fyrir tekjum af aukinni atvinnustarfsemi í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar. Stór verkefni hafa stöðvast og segir Árni Sigfússon bæjarstjóri stefnt að því að minnka útgjöld bæjarins um 450 milljónir króna á ári, til viðbótar þeim sparnaði sem ráðist var í á síðasta ári.

Í fyrra var samið við flesta embættismenn og framkvæmdastjóra og þá starfsmenn sem höfðu yfir 400 þúsund kr. í mánaðarlaun um að minnka starfshlutfall um 10%. Það samkomulag rennur út á næstunni. 

Árni segir að verið sé að ræða við starfsfólkið um að framlengja þetta samkomulag út næsta ár og í sumum tilvikum að auka skerðingu. Þá sé rætt við fleiri starfsmenn um skert starfshlutfall.

Rætt er um að stytta afgreiðslutíma bæjarskrifstofa og þjónustustofnana.

Árni tekur fram að þetta eigi ekki við um grunnskóla og leikskóla enda sé lögð áhersla á að verja lögbundna grunnþjónustu.

Árni segir að ekki verði farið í hópuppsagnir en útilokar ekki að starfsfólki fækki.

„Við höfum verið að ræða við starfsmenn og þeir hafa tekið þessu vel,“ segir Árni.

Niðurskurður á styrkjum og framkvæmdum

Stjórnendur bæjarins eru einnig að undirbúa niðurskurð á styrkjum, viðhaldi og ýmsum framkvæmdum, það sem eftir er af þessu ári og á því næsta.

„Við teljum þetta vera raunhæfa aðgerð sem dugi til að komast út úr þeim erfiða vetri sem framundan er,“ segir Árni

Árni Sigfússon getur þess að hann sé vongóður um að einhver af þeim atvinnuverkefnum sem unnið hefur verið að komist af stað, þótt ljóst sé að það gerist ekki á þeim tíma sem reiknað var með. Reynslan sýni að atvinnutekjur skili sér fljótt í auknum skatttekjum og það muni þá létta róðurinn.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, ræðir við íbúa.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, ræðir við íbúa. mbl.is/ÞÖK
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert