„Það er að gera mitt allra besta í hverri einustu grein og sjá hvað það dugar langt,“ segir Stefán Sölvi Pétursson aflraunamaður sem í dag komst í úrslit í keppninni „Sterkasti maður heims“ í Sun City í Suður-Afríku. Hann var spurður um markmiðin í úrslitakeppninni.
Stefán Sölvi er „Sterkasti maður Íslands“ og tekur nú í þriðja skipti þátt í keppninni „Sterkasti maður heims“. Hann hefur ekki áður komist í úrslit keppninnar og ellefu ár eru síðan Íslendingur náði svo góðum árangri.
Hörð keppni var í riðlinum sem Stefán Sölvi var í en tveir keppendur af sex komust áfram. Stefán náði öðru sætinu, varð á eftir Bandaríkjamanninum Brian Shaw sem talinn er sigurstranglegur í keppninni. Stefán tryggði annað sætið með því að sigra í hleðslugrein í lokin. Þá þurftu keppendur að hlaupa með 110 kílóa bjórkúta í sandi upp brekku og hlaða á pall. „Þetta var erfitt, en það hafðist,“ segir Stefán.
Úrslitin verða á þriðjudag og miðvikudag og þá verður keppt í sex greinunum, eins og í riðlakeppninni.
Stefán Sölvi hefur verið í aflraunum frá því hann var nítján ára og keppt á alþjóðavettvangi í fjögur ár. Hann er ennþá ungur og setur markið hátt.
Jón Páll Sigmarsson og Magnús Ver Magnússon hafa sigrað fjórum sinnum hvor í keppninni „Sterkasti maður heims“ og því hafa Íslendingar sigrað átta sinnum alls. Engin þjóð hefur gert betur, Bandaríkjamenn koma næstir með sjö titla.
„Það væri gaman að komast í topp fimm,“ segir Stefán um markmiðið en tekur fram að keppnismaðurinn í honum stefni alltaf að sigri. Tíu aflraunamenn eru í úrslitunum.