Trúnaðarskjöl í þremur möppum

Herbergin þrjú í Skála Alþingis þar sem þingmenn geta skoðað …
Herbergin þrjú í Skála Alþingis þar sem þingmenn geta skoðað trúnaðargögn vegna umfjöllunum um ráðherraábyrgð. Skjalamappan sést á borði í herbergi sem í daglegu tali er nefnt Glerbúrið. mbl.is/Kristinn

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ekkert komi fram í trúnaðarskjölum þingmannanefndar um niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis sem breyti þeirri skoðun hennar að málshöfðun gegn fyrrverandi ráðherrum sé ekki á rökum reist.

Þingmönnum gefst kostur á því um helgina að skoða þau gögn sem þingmannanefnd sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þar á meðal um ábyrgð ráðherra, aflaði.

Tekin voru afrit af skjölunum og þeim komið fyrir í möppum í þremur herbergjum í Skála Alþingis, það er að segja Færeyska herberginu, blaðaherberginu og „Glerbúrinu“. Þingmennirnir fá aðeins aðgang að skjölunum á staðnum, í trúnaði, og geta ekki fengið afrit af neinum gögnum.

Auk þess eru í annarri möppu ýmis gögn sem nefndin aflaði þótt þau séu ekki talin skipta máli varðandi umfjöllun um ráðherraábyrgð. Þá er hægt að skoða bréf til nefndarinnar og ýmis önnur opinber gögn á vef Alþingis.

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, reiknar með að möppunum með trúnaðarskjölunum verði komið fyrir á nefndasviði Alþingis eftir helgi.

Þingmenn hafa ekki beðið í röðum eftir að komast í gögnin.

Leysir ekki úr vafanum

„Ég taldi að ekki væri fullnægjandi grundvöllur fyrir kæru og þessi gögn hafa engu breytt um þá skoðun mína, nema síður sé,“segir Ólöf sem hefur farið í gegn um trúnaðarskjölin.

Hún lýsir einnig áhyggjum af því hvernig staðið hefur verið að málum gagnvart þeim sem lagt er til að verði ákærðir. „Þau gögn sem komu fyrir nefndina leysa að mínu mati ekki úr þeim vafa sem orðinn er og hann verður að túlka þeim sökuðu í hag,“ segir Ólöf.

Ólöf Nordal á Alþingi.
Ólöf Nordal á Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka