Aldrei séð jafn marga á baki

Úr Skrapatungurétt.
Úr Skrapatungurétt. mbl.is/Jón Sigurðsson

„Ég hef aldrei séð jafn marga á hestbaki á sama tíma. Það hafa allavega verið 300 manns,“ segir Valgarður Hilmarsson, „ferðamannafjallkóngur“ við stóðsmölun á Laxárdal í Austur-Húnavatnssýslu.

Valgarður er í Skrapatungurétt að ganga sundur hross og sinna ferðafólki sem var með í stóðsmölun.

Heimamenn hafa í mörg ár boðið gestum með í stóðsmölun á eyðidalnum Laxárdal. Hefur þátttakan vaxið ár frá ári. Síðustu þrjú árin hefur verið margt gesta en aldrei sem nú.

Þátttakendur leigja hesta hjá heimamönnum eða koma með eigin hesta. Auk þess voru þrír hópar ferðafólks á vegum ferðaþjónustufyrirtækja. Telur Valgarður að 50-70 erlendir ferðamenn hafi verið í hópnum að þessu sinni. 

Hrossunum var smalað í gær. Ætti það að hafa gengið vel því nú voru 300 manns að smala með þeim tíu mönnum sem formlega hafa það hlutverk. 

Áð var að vanda við Kirkjuskarðsrétt á Laxárdal. Þar myndast sérstök stemmning með söng og spjalli. Rekið var í Skrapatungurétt undir kvöld.

Sumir fóru á réttaball en svo tók alvaran við í morgun þegar bændur byrjuðu að ganga í sundur hross sín. Um 700 hross koma í Skrapatungurétt og standa réttastörfin fram eftir degi. 

Einhverjir gestanna hjálpa jafnvel til við að reka hrossin heim úr réttum.

Þetta er í tuttugasta sinn sem gestum er boðið með í hrossasmölun á Laxárdal.

„Við erum að þessu til að efla ferðaþjónustu á svæðinu og nýta þetta tækifæri til að gefa fólki kost á að upplifa stemmninguna með okkur,“ segir Valgarður. Hann telur sýnilegt að fjölga muni í hópnum á næstum árum og þurfi að gera ráðstafanir til að fá fleiri hesta fyrir fólkið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert