Hættulegt fyrir orðspor okkar

Jóhannes Arason með hvítan saltfisk, án kalks.
Jóhannes Arason með hvítan saltfisk, án kalks. mbl.is

Hægt er að ná góðri nýtingu við saltfiskvinnslu með viðurkenndum aðferðum og náttúrulegum hjálparefnum, að sögn ráðgjafa í matvælaiðnaði. Hann segir að það sé stórhættulegt fyrir orðspor Íslendinga á mörkuðum að nota fjölfosfat til að gera fiskinn hvítan.

Jóhannes Arason hefur verið við ráðgjafarstörf í matvælaiðnaði í fjörutíu ár og hefur unnið mest erlendis síðustu árin. Hann hefur fylgst með þróuninni í saltfiskframleiðslu og þegar hann sá fréttir af því að Fiskverkun Karls Sveinssonar á Borgarfirði eystra hefði þurft að segja upp starfsfólki sínu vegna minnkandi verkefna í kjölfar þess að fyrirtækið vildi ekki nota ólögleg efni hafði hann samband við Karl og bauð honum aðstoð sína við að ná sama árangri með viðurkenndum aðferðum. Eins og komið hefur fram ákvað Karl að fara með málið fyrir Eftirlitsstofnun EFTA og óska eftir opinberri rannsókn á starfsemi Matvælastofnunar vegna málsins.

Jóhannes segir að flestir íslenskir saltfiskframleiðendur noti aukaefni sem óheimilt sé að nota samkvæmt Evrópureglum. Það sé viðurkennt. Hins vegar hafi Matvælastofnun séð í gegn um fingur sér við framleiðendur. Hann telur að vélasalar eigi hér mikla sök. Framleiðendur hafi fjárfest í vélum til að sprautusalta og vilji nota þær.

Hann segir að íslenski saltfiskurinn trufli markaðinn. Fiskurinn sé óeðlilega hvítur og skapi það öðrum framleiðendum erfiða stöðu. „Þessi fiskur á ekki að vera viðmiðun enda ekki hægt að framleiða hann löglega,“ segir Jóhannes og bætir við efnasemdum um heilnæmi fisks sem framleiddur er með þessum aðferðum.

Ráðgjafarfyrirtæki Jóhannesar var nýlega kallað til þegar stórt franskt saltfiskfyrirtæki átti í vandræðum í samkeppni við saltfisk framleiddan á Íslandi. Framleiðandinn var búinn að ná fiskinum hvítum með því að dæla í hann fosfati og því til viðbótar að nota vanalegt kalk, eins og notað er til að hvíta hús og veggi með. Þetta hafi verið gert til að reyna að standast samkeppni við íslenskan ólöglega framleiddan saltfisk.

Jóhannes segir vel hægt að framleiða náttúrulegan saltfisk með þekktum aðferðum. Aðalatriðið sé að framleiða vöruna úr góðu hráefni, koma góðum bindieiginleika í vöruna og nota náttúruleg efni til að varna gulnun. Allt sé þetta fyrir hendi. Meira að segja sé hægt að framleiða saltfisk með eins góðri nýtingu og „kalk-fosfat“ aðferðin býður upp á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka