Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, lýsir furðu sinni á málflutningi meirihlutans. Hann segir enga umræðu hafa farið fram um niðurskurð innan bæjarstjórnar, en Friðjón sendi frá sér yfirlýsingu rétt í þessu.
Reykjanesbær sendi frá sér fréttatilkynningu fyrr í dag, þar sem fram kom að niðurskurðaráætlanir hefðu meðal annars verið ræddar 9. og 16. september. Friðjón lýsir furðu sinni á þeim málflutningi.
Yfirlýsing Friðjóns er svohljóðandi:
„Engin umræða hefur farið fram í bæjarráði eða bæjarstjórn um niðurskurð eða að sparnaðartillögur meirihlutans. Þetta má glögglega sjá á vef Reykjanesbæjar í fundargerðum bæjarráðs
Ég sem oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæbæ lýsi furðu minni á málatilbúning sjálfstæðismanna og ítreka fyrri orð mín sem birst hafa í fjölmiðlum í dag.
Við sem sitjum í minnihluta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar höfum ítrekað lýst yfir vilja til að vinna saman með meirihlutanum í að rétta rekstur bæjarins við eftir viðvarandi hallarekstur undanfarinna ára og koma með lausnir og hugmyndir þar að lútandi.
Meirihlutinn hefur hinsvegar kosið að hunsa þessa viðleitni og ekki einu sinni séð þörf á að upplýsa okkur um aðgerðir í niðurskurði."