Efins um stuðning við ákæru

Óvissa er um framgang tillögu um að Alþingi ákæri fyrrverandi …
Óvissa er um framgang tillögu um að Alþingi ákæri fyrrverandi ráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þingmaður VG telur óvíst að þingmeirihluti sé fyrir tillögum um að Alþingi stefni fyrrverandi ráðherrum fyrir landsdóm. Gagnrýni forsætisráðherra á málsmeðferð kom þingmönnum VG á óvart.

„Það kom mér á óvart að heyra þessa gagnrýni forsætisráðherra. Hún stóð eins og aðrir þingmenn að tillögu um að hleypa þessari rannsókn af stað,“ segir Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, um gagnrýni forsætisráðherra á málsmeðferð þingmannanefndar sem fjallaði um niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og ráðherraábyrgð.

Árni Þór Sigurðsson, varaformaður þingflokks VG, tekur undir þetta. Segir að allir hafi vitað frá upphafi að það væri hlutverk þingmannanefndarinnar að fjalla um ráðherraábyrgð og hefði verið eðlilegt að þeir héldu því þá til haga. 

„Þegar nefndin var sett á laggirnar gátu allir gengið að því vísu með hvaða hætti lagaumgjörðin væri. Mér finnst þessi gagnrýni því dálítið seint fram komin núna,“ segir Árni Þór.

Ómakleg gagnrýni

Árni Þór segist ekki geta litið á gagnrýni forsætisráðherra öðruvísi en sem gagnrýni á störf þingmannanefndarinnar, þar á meðal fulltrúa Samfylkingarinnar. „Mér finnst þetta ómakleg gagnrýni. Nefndin hefur verið einróma í störfum sínum, þar til síðast, að kom að ráðherraábyrgðinni en þá skildu leiðir. Öll skref um málsmeðferð voru tekin einum rómi,“ segir Árni Þór.

Björn Valur segist hafa verið undrandi á ræðu Jóhönnu sem honum fannst snúast talsvert um fyrrverandi utanríkisráðherra og sannfæringu hennar um að hún væri saklaus. „Ég hef ekki hugmynd um það, vil bara að það verði leitt í ljós fyrir viðkomandi dómstól.“

Hann segir að forsætisráðherra sé frjálst að hafa sína skoðun á þessum málum. „En það eru vissulega vonbrigði þegar forsætisráðherra, hver sem hann er, efast um réttmæti niðurstöðu þingmannanefndar af því tagi sem hér um ræðir. Þetta snýst um uppgjör við þessa erfiðu tíma, efnahagshrunið. Það hefði verið æskilegra að sá sem leiðir ríkisstjórnina, leiðir stjórnmálalífið, hefði verið afdráttarlausari í stuðningi sínum við uppgjörið, þar á meðal niðurstöðu þingmannanefndarinnar,“ segir Björn Valur.

Setur málið í óvæntan farveg

Hann segir að útspil Jóhönnu setji málið í óvæntan farveg. „Miðað við vægi hennar orða hlýtur að vera viss óvissa um afdrif málsins,“ segir Björn Valur. Hann vísar í umræður um að vísa málinu til annarra þingnefnda og telur að Jóhanna hafi verið að taka undir það með því að segja að málið þurfi meiri tíma. „Ég er ósammála henni. Það er kominn tími til að setja málið á beinu brautina og afgreiða það,“ segir Björn Valur.

Árni Þór segir að meirihluti þingmannanefndarinnar hafi í greinargerð með tillögu sinni svarað þeirri gagnrýni sem fram kom hjá forsætisráðherra á þinginu í dag um andmælarétt og málsmeðferð alla. „Mér finnst skrítið að setja þetta fram með þessum hætti,“ segir hann.

Spurður um hugmyndir Jóhönnu að halda nefndafundi milli umræðna og jafnvel að hafa þá opna segir Árni Þór að umfjöllun um málið í þinginu sé ekki réttarhald. „Þetta er ákvörðun Alþingis um það hvort stefna eigi fyrrverandi ráðherrum fyrir dóm vegna meints brots á lögum um ráðherraábyrgð. Þetta er ákvörðun sem Alþingi þarf að taka. Það er að mínu mati sérkennilegt ef vísa á þessu máli til annarrar þingnefndar en þeirrar sem hefur fjallað um það mánuðum saman og sett var sérstaklega á fót vegna þess,“ segir Árni Þór Sigurðsson.

Efins um stuðning

Spurður að því hvort hann teldi að þingmeirihluti væri fyrir tillögu um að stefna fyrrverandi ráðherrum fyrir landsdóm segir Björn Valur. „Ég þori ekki að segja til um það hvort meirihluti er fyrir tillögu meirihluta þingmannanefndarinnar eða tillögu Samfylkingarinnar sem gengur skemur, að styðja þetta mál í gegn. Ég er efins um það, eftir daginn,“ segir Björn Valur.

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason mbl.is
Árni Þór Sigurðsson.
Árni Þór Sigurðsson. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert