Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra gagnrýndi á Alþingi í dag málsmeðferð þingmannanefndarinnar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
„Ég hefði talið það rétt og eðlilegt, að þingnefndin leitaði skriflegs álits, til að mynda hjá Feneyjanefndinni, sem starfar innan vébanda Evrópuráðsins og skipuð er sérfræðingum á sviði stjórnskipunarréttar," sagði Jóhanna. Vert hefði verið að leggja þá spurningu fyrir Feneyjanefndina hvort réttarstaða þeirra, sem nú er lagt til að verði ákærðir, standist nútímakröfur um mannréttindavernd sakborninga.
„Um það
hef ég miklar efasemdir og ég undrast sérstaklega, að engin sjálfstæð
rannsókn eða skýrslutaka hafi farið fram í þingmannanefndinni, meðal
annars vegna þess að allir nefndarmenn hyggjast í raun víkja frá
niðurstöðu þingmannanefndarinnar í sínum tillögum eða með því að láta
hjá líða að flytja tillögu um ákæru," sagði Jóhanna.
Lýsti Jóhanna m.a. þeirri skoðun, að yfirgnæfandi líkur séu á að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, verði sýknuð fyrir landsdómi fari mál hennar þangað.
Sagði Jóhanna, að niðurstaða hennar væri, að enn skorti mikið á, að hægt sé að greiða atkvæði um þingsályktunartillögurnar tvær, sem lagðar hafa verið fram á Alþingi um ákærur á hendur fyrrverandi ráðherrum.
Þá lýsti Jóhanna því yfir, að hún hefði miklar efasemdir um að hægt sé að ákæra ráðherrana fyrrverandi eins og þingsályktunartillögurnar gera ráð fyrir. Þótt kæruatriðin í þingsályktunartillögunum væru alvarleg yrði að hafa það hugfast, að ráðherrarnir, sem þar eru nefndir, voru ekki í neinum færum á árinu 2008 til að afstýra bankahruninu. Sú vanræksla, sem rannsóknarnefnd Alþingis teldi þrjá af ráðherrunum fyrrverandi seka um, lyti að því að þeir hefðu getað takmarkað tjónið þegar þeim var ljóst í hvað stefndi.
Jóhanna sagði, að þeir, sem lagt er til að verði ákærðir, hefðu þannig ekki notið nægilegrar réttarverndar á öllum stigum málsins, einkum varðandi andmælarétt og staðið höllum fæti í aðdraganda málsins. Sagðist hún telja, að gefa eigi ráðherrunum fyrrverandi kost á að koma andmælum sínum við sakarefnið betur á framfæri en verið hafi. Þannig komi til greina að haldnir verði nefndarfundir milli umræðna um þingsályktunartillögurnar þar sem sérfræðingar í lögum verði kallaðir til og fyrrverandi ráðherrar. Til greina kæmi að hafa slíka fundi opna fyrir almenning.
Jóhanna sagði sagði, að hún teldi það landsdómsfyrirkomulag, sem mælt er fyrir í stjórnarskrá Íslands, afar óeðlilegt. Sjálf hefði hún á löngum þingmannsferli sínum oft flutt tillögur um breytingu á lögum um ráðherraábyrgð og landsdóm en þær tillögur hefðu ekki fengið brautargengi.
Þá sagði Jóhanna, að einn helsti ágalli laganna væri sá skammi fyrningarfrestur, sem þar væri kveðið á um. Í máli sem þessu, efnahagshruni sem átti sér langan aðdraganda, væri vandasamt með hliðsjón af almennum sanngirnissjónarmiðum, að draga þá sem stigu inn á sviðið í lokaþætti atburðarásarinnar, eina til ábyrgðar. Ekkert bendi til annars en að þeir, sem komu að málum í þessum lokaþætti hafi haft annað en almannahagsmuni að leiðarljósi í störfum sínum.