Hækkun jaðarskatta dregur ekki úr vinnu

Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands segir að hækkun svonefndra jaðarskatta á síðasta áratug 20. aldar hafi ekki haft merkjanleg tengsl við lengd vinnutíma eða atvinnuþátttöku.  Vinnutími hafi í reynd verið lengri þegar skattheimtan var hvað hæst og  styttist heldur þegar hún lækkaði.

Þetta kemur fram í grein eftir Stefán Ólafsson, prófessor, í nýju  fréttabréfi Þjóðmálastofnunar.  Segir þar, að frjálshyggjumenn hafi almennt lagt mjög mikla áherslu á meint neikvæð áhrif tekjuskatta einstaklinga á vinnuframboð þeirra og gjarnan haldið því fram, að hækki skattar þá dragi vinnandi fólk úr vinnutíma sínum, eða minnki  atvinnuþátttöku sína og jafnvel yfirgefi vinnumarkaðinn. Þessi meintu áhrif séu síðan talin hafa neikvæð áhrif á hagvöxt.

Stefán segir, að eftir að hátekjuskattur var lagður á 1994 hafi vinnutími lítið breyst í fyrstu en síðan lengst örlítið. Síðan þegar hátekjuskattur var lækkaður og endanlega afnuminn hafi vinnutími alls ekki aukist eins og frjálshyggjumennirnir fullyrði að gerist, heldur þvert á móti styttist vinnutíminn með lægri skattheimtu.

„Dómur reynslunnar er því ekki sá að hærri tekjuskattheimta dragi úr vinnutíma heldur er hærri skattheimta líklegri til að lengja vinnutíma fólks! Meginniðurstaðan er þó sú, að skattheimta (tekjuskattur einstaklinga) hafi lítið sem ekkert haft að gera með þróun vinnutími og atvinnuþátttöku einstaklinga á Íslandi á tímabilinu. Önnur atriði ráða mestu á þessu sviði. Það er því ekki forsenda til að draga mjög afgerandi ályktanir um að skattahækkanir til skemmri tíma kæfi vinnuvilja, framtakssemi og hagvöxt með afgerandi hætti. Þetta er ekki sagt hér til að mæla með skattahækkunum, heldur til að draga athygli að staðreyndum sem byggðar eru á reynslu og traustum gögnum," segir Stefán.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert