Hrefnuveiðitímabilinu lauk nú um helgina og alls hafa 60 dýr verið veidd frá því í vor. Þar af veiddu Hrefnuveiðimenn ehf. 50 dýr og Útgerðarfélagið Fjörður ehf. 10 dýr.
Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri Hrefnuveiðimanna ehf., segir í samtali við mbl.is að veiðin hafi gengið vel. Hrafnreyður KÓ - 100 hafi lagt af stað í sína síðustu veiðiferð frá Kópavogshöfn á laugardagsmorgun. Í gær var svo síðustu hrefnunni landað.
„Við erum að pakka síðasta dýrinu,“ segir Gunnar. Hrefnuveiðimenn hófu hrefnuveiðar um miðjan maí og veiddu alls 50 dýr að sögn Gunnars.
„Þetta hefur gengið mjög vel,“ segir Gunnar og bætir við að salan hafi verið svipuð og í fyrra.
Allt kjötið fer á innanlandsmarkað. „Það er ástæðan fyrir því að við erum ekki að veiða meira,“ segir Gunnar. Alls mátti veiða 216 dýr.
Hann segir stefnan sé tekin á að fara á línuveiðar í október. „Svo byrjum við aftur næsta vor. Eftir miðjan apríl eða í byrjun maí. Þá ætlum við að vera með hvalaskoðun meðfram veiðunum allt næsta sumar,“ segir Gunnar.
Skv. upplýsingum frá Útgerðarfélaginu Firði ehf., sem gerir út hrefnuveiðibátinn Hafstein SK-3, sá kjötvinnslan Esja um að vinna kjötið og pakka því fyrir
veitingahús og einstaklinga. Hrefnurnar 10 voru allar veiddar í vor.