Meirihluti forsætisnefndar borgarstjórnar hefur samþykkt að hækka laun fyrstu varaborgarfulltrúa, sem voru lækkuð í síðustu fjárhagsáætlun. Meirihlutinn lagði tillöguna fram á fundi nefndarinnar sl. föstudag. Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar, greiddi atkvæði gegn tillögunni.
Hanna Birna segir í bókun það það veki furðu að meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar hafi ákveðið að hækka laun 1. varaborgarfulltrúa verulega.
Þessi aðgerð sé „táknræn um ranga forgangsröðun auk þess að fela í sér neikvæð
skilaboð til starfsmanna borgarinnar sem allir hafa lagt mikið á sig í
þeim hagræðingaraðgerðum sem í gangi hafa verið,“ segir Hanna Birna.
Tillagan var samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu.
Björk Vilhelmsdóttir, Einar Örn Benediktsson og Dagur B. Eggertsson lögðu fram svohljóðandi tillögu á fundinum:
„Lagt er til að frá og með 1. september 2010 verði launakjör fyrstu varaborgarfulltrúa með sama hætti og við lok síðasta kjörtímabils, þ.e. að þeir njóti 70% af grunnlaunum borgarfulltrúa með sömu ákvæðum um álagsgreiðslur, skerðingar og starfsaðstöðu og áður giltu. Þar með er fallið frá þeim breytingum á kjörum og starfsaðstöðu fyrstu varaborgarfulltrúa sem tóku gildi við upphaf þessa kjörtímabils um að fyrstu varaborgarfulltrúar fengju greitt fyrir störf sín með sama hætti og aðrir kjörnir fulltrúar en borgarfulltrúar.“
Hanna Birna lét bóka eftirfarandi:
„Á síðasta ári var öll áhersla lögð á að sú launahagræðing og sá sparnaður, sem varð að eiga sér stað hjá Reykjavíkurborg, næði með sanngjörnum hætti til allra sem borið gætu slíkar breytingar. Þannig voru laun æðstu embættismanna borgarinnar lækkuð um 10%, auk þess sem laun þáverandi borgarstjóra voru lækkuð um tæp 20%. Samhliða voru laun borgarfulltrúa lækkuð og gerðar breytingar á samþykktum borgarinnar til að lækka kostnað vegna kjörinna fulltrúa. Allt hafði þetta það eitt að markmiði að standa vörð um grunnþjónustu borgarinnar, auk þess sem með þessum hætti var hægt að koma í veg fyrir uppsagnir borgarstarfsmanna. Það vekur furðu að þrátt fyrir þá góðu samstöðu sem um þessar breytingar náðist, skuli meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar nú ákveða að hækka laun 1. varaborgarfulltrúa verulega. Þrátt fyrir að þessi breyting nái aðeins til nokkurra aðila og upphæðin sé ekki há í samhengi hlutanna, er þessi aðgerð táknræn um ranga forgangsröðun auk þess að fela í sér neikvæð skilaboð til starfsmanna borgarinnar sem allir hafa lagt mikið á sig í þeim hagræðingaraðgerðum sem í gangi hafa verið. Því greiðir fulltrúi Sjálfstæðisflokksins atkvæði gegn tillögunni.“