Myndi draga úr útblæstri

Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs.
Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs. Árni Sæberg

Framleiðsla gervieldsneytis úr koldíoxíði í útblæstri frá Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga yrði jákvætt skref í loftslagsmálum, að mati Sigurðar Inga Friðleifssonar, framkvæmdastjóra Orkuseturs. Hann segir þróun rafhlaðna í rafbíla hraðari en hann gerði ráð fyrir.

Eldsneytið, dímetýl-eter, gæti eins og komið hefur fram leyst díselolíu af hólmi sem orkugjafi fiskiskipaflotans.

„Þetta yrði jákvætt fyrir umhverfið. Útblástur gróðurhúsalofttegunda er nýttur til framleiðslu á eldsneyti. Ef allur útblásturinn frá Járnblendiverksmiðjunni yrði nýttur í framleiðsluna myndi hann hverfa. Hins vegar myndi skipið eða bíllinn sem brennir gasinu valda útblæstri. Á móti kemur að skipið eða bíllinn myndi gera það hvort sem er.“

Fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins um hugmyndir Mitsubishi Heavy Industries um nýja eldsneytisverksmiðju á Grundartanga að áætlað sé að gasið verði jafn dýrt og díselolía, að því gefnu að það beri enga skatta.

Inntur eftir kostnaðinum bendir Sigurður Ingi á að fiskiskipaflotanum bjóðist díselolía á um 110 krónur, samanborið við um 190 krónu útsöluverð á bensínstöðvum fyrir bifreiðar. Því þurfi olíuverð að hækka umtalsvert til að gasið verði jafn hagkvæmt og díselolían. Á hinn bóginn myndi notkun gassins styðja þá ímynd íslensku útgerðarinnar að hún sé sjálfbær.

Orkunýtnin minni en í rafbílum

- Yrði verksmiðja af þessu tagi liður í að draga úr losun?

„Já. Hún myndi klárlega stuðla að minni losun. Orkunýtnin er hins vegar ef til vill ekki mjög góð. Grunnorkugjafinn er þá raforka. Fyrst þarf að rafgreina vetnið og það útheimtir mikla orku. Ef gasið yrði sett á bíl fæli það í sér mikið orkutap samanborið við að setja rafmagnið beint á rafgeymi. Það þyrfti mikla orku í að framleiða gasið.

Við erum hins vegar ekki að fara að nota raforku til að knýja skip. Það er ekki raunhæfur möguleiki í fyrirsjáanlegri framtíð. Sá samanburður er því ekki sanngjarn. Þannig að þetta er lausn sem væri hægt að hrinda í framkvæmd hér og nú.“

Þróunin hraðari en spár gerðu ráð fyrir

Fram kemur í viðtali Morgunblaðsins við Hiroaki Takatsu, framkvæmdastjóra verkfræði- og þróunardeildar japanska rafhlöðufyrirtækisins Tepco, að verð á litínjónarafhlöðum í bifreiðar hafi lækkað um helming frá því í ársbyrjun.

Aðspurður um þessa staðreynd segir Sigurður Ingi hana koma skemmtilega á óvart. Þróunin sé hraðari en hann gerði ráð fyrir.

Því liggur beinast við að spyrja hvort raunhæft sé að árið 2020 verði hægt að draga verulega úr eldsneytisnotkun frá því sem nú er.

Inntur eftir raunhæfri sviðsmynd að áratug liðnum svarar Sigurður Ingi því til að árið 2020 sé vel raunhæft að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Hvernig til takist fari eftir ýmsum þáttum þar sem áðurnefnd verksmiðja komi við sögu. Notkun tvinnbíla, sem ganga fyrir eldsneyti og rafmagni, sé liður í að draga úr eldsneytisnotkuninni.

Rafbíllinn Nissan Leaf kostar á þriðju milljón króna með skattafslætti …
Rafbíllinn Nissan Leaf kostar á þriðju milljón króna með skattafslætti í Kaliforníu.
Mælaborðið í Nissan Leaf.
Mælaborðið í Nissan Leaf.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka