Fréttaskýring: Napurleg bið eftir nauðsynjavörum

Fjöldi fólks leitar til Fjölskylduhjápar í Eskihlíð 2-4.
Fjöldi fólks leitar til Fjölskylduhjápar í Eskihlíð 2-4. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Hjálparstofnanir hafa nú opnað dyr sínar að nýju eftir sumarfrí og ljóst að þörfin er ekki minni en áður. Nöturleg merki þess sáust við Fjölskylduhjálp á miðvikudag þar sem löng röð myndaðist mörgum klukkutímum áður en matarúthlutun hófst.

Þeir sem biðu í röð úti undir berum himni eftir því að fá að borða á miðvikudag máttu þakka fyrir að enn er nokkuð milt haustveður, þótt kaldir vindar hafi blásið, en vænta má þess að biðin verði öllu harðneskjulegri þegar veturinn skellur á.

„Auðvitað vildum við hafa sæti hér og rými svo fólk þurfi ekki að halda á börnum úti í öllum veðrum,“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, framkvæmdastjóri Fjölskylduhjálpar. „Fólk kemur svoleiðis blákalt inn, það er alveg hrikalegt að þurfa að horfa upp á þetta vetur eftir vetur.“

Ásgerður segir að þörfin sé brýn fyrir stærra húsnæði. Engin salernisaðstaða sé t.d. í húsinu fyrir þá sem bíða og ekki heldur aðgengi fyrir fólk bundið hjólastólum þar sem dyr hússins eru of þröngar.

Þá segist Ásgerður gjarnan vilja bjóða upp á leikhorn fyrir börnin því margir hafi ekki kost á öðru en taka þau með sér í biðröðina.

Plástursaðgerðir hjálpa engum

Björk Vilhelmsdóttir, formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir að bregðast verði við vandanum sem blasi við hjálparstofnunum á heildstæðari hátt en með skyndilausnum. „Það verður að leysa vanda fátækra á annan hátt en með súpueldhúsum og stærra húsnæði svo biðraðir geti verið enn lengri. Það er ekki hlutverk sveitarfélagsins að bregðast sérstaklega við, það eru allir aðilar vinnumarkaðarins, þeir sem semja um atvinnuleysisbætur, um lífeyri. Plástursaðgerðir eru ekki til hagsbóta fyrir einn eða neinn.“

Í sumar var settur á laggirnar starfshópur um fátækt sem vinnur að kortlagningu fátæktar í borginni. Sr. Bjarni Karlsson leiðir starfið og segir að lagðar verði fram tillögur um úrbætur í janúar. „Við erum að spyrja okkur dýpri spurninga, hvernig stendur á því að þetta er svona og hvað er hægt að gera í stöðunni þannig að fólk í íslensku samfélagi þurfi ekki að standa í röðum eftir að þiggja ölmusu, því sá veruleiki fátæktarinnar sem birtist í þessari mynd er óþolandi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka