„Það var ekki við öðru að búast en að þetta yrði útkoman,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um þá niðurstöðu nefndar um orku- og auðlindamál, að formlegum skilyrðum laga hafi verið fullnægt í viðskiptum Magma Energy á eignarhlutum í HS Orku.
„Málið var alltaf í réttum farvegi og fór fyrir nefnd um erlenda fjárfestingu sem var búin að afgreiða málið fyrir sitt leyti. Það eina sem hefur gerst í málinu er að ríkisstjórnin hefur tafið og skapað óvissu.“
Hann segir löggjöfina hér á landi byggjast á frelsi til fjárfestinga innan EES. „Við gerum kröfu til þess að sú löggjöf sé túlkuð með sama hætti í öðrum EES-ríkjum og á að túlka hana hér. Í þessu máli sýnist mér ljóst að lögin girða ekki fyrir þá fjárfestingu sem er hér um að ræða. Vilji menn hins vegar setja frekari skilyrði fyrir slíkri fjárfestingu þá þarf að ræða það.“