Nýnasistar á nýjum klæðum

Jimmie Åkesson smellir kossí á unnustu sína Louise Erixon á …
Jimmie Åkesson smellir kossí á unnustu sína Louise Erixon á sigurhátíð flokksins í Stokkhólmi í gær. Reuters

„Jafnvel þótt Svíþjóðardemókratar setji stefnu sína fram á málefnalegri hátt en þeir gerðu fyrir kosningarnar 2006 dylst engum að þetta er flokkur sem er mjög fjandsamlegur útlendingum og þá sérstaklega múslímum,“ segir Gunnhildur Lilý Magnúsdóttir, lektor í stjórnmálafræði við háskólann í Malmö.

„Þeir hafa lýst því yfir opinberlega að þeir séu á móti því sem þeir kalla íslamsvæðingu Svíþjóðar. Þeirra helsta stefnumál er að herða innflytjendalöggjöfina. Þeir hafa svo bætt við stefnuskrána að þeir vilji betri þjónustu fyrir aldraða og lengri fangelsisdóma.

Það dylst þó engum að innflytjendur eru helsta skotmark Svíþjóðardemókratanna. Það er ekki langt síðan flokksfélagar í Svíþjóðardemókrötum mættu á flokksfundi í nasistabúningum. Þetta var árið 1995. Þannig að þetta er nýnasískur flokkur. Það er alveg á hreinu.“

- Hvers vegna þessi andúð á múslímum?

„Þeirra rök eru þau að þeir eigi erfiðara með að aðlagast sænsku samfélagi og að þetta séu tveir menningarheimar sem geti ekki farið saman, annars vegar hinn sænski og hins vegar hinn arabíski. Þetta eru þeirra rök en ekki rök meirihlutans.“

Njóta mikils fylgis á Skáni

Gunnhildur Lilý segir Svíþjóðardemókrata einkum sækja fylgi sitt til borga og bæja þar sem hlutfall innflytjenda er hátt í Svíþjóð.  

„Ég bý á Skáni sem er helsta vígi Svíþjóðardemókratanna. Rætur þeirra liggja þar. Það er til dæmis mjög mikið af innflytjendum í Malmö sem segja má að sé hliðið inn í Svíþjóð frá Evrópu. Þeir eru vinsælir í Malmö þar sem er mikið af innflytjendum. Þeir eiga auðvelt með að tengja ýmis vandamál innflytjendum, til dæmis glæpi sem raktir eru til glæpagengja sem náð hafa fótfestu hér í Malmö.

Hér í Malmö fengu Svíþjóðardemókratarnir 10% atkvæða. Ég bý sjálf í Lundi þar sem þeir hafa ekki náð jafn mikilli fótfestu. Ef ég nefni önnur sveitarfélög á Skáni þá fengu þeir til dæmis 17% atkvæða í Dalby. Það er mjög mikið og áhyggjuefni.“

Byggðu stór hverfi fyrir innflytjendur

- Er þetta ekki vísbending um að eitthvað hafi farið úrskeiðis við aðlögun innflytjenda að sænsku þjóðfélagi?

„Ég hugsa að margir myndu segja að það þyrfti að taka innflytjendastefnuna til endurskoðunar og að það hafi verið gerð mistök fyrir 20 til 30 árum þegar stór hverfi fyrir innflytjendur voru byggð. Ég held samt sem áður að hinn almenni Svíi fylgi Svíþjóðardemókrötunum ekki að máli, né heldur að þeir taki undir þá stefnu flokksins að Svíþjóð eigi aðeins að vera fyrir Svía. Það er stór munur á því að vilja endurskoða innflytjendastefnuna og að fylgja Svíþjóðardemókrötum að máli.“

- Í hverju liggur þessi stóri munur?

„Hann liggur kannski fyrst og fremst í því að vilja styðja við þá innflytjendur í landinu og aðstoða þá við að verða hluti af sænsku samfélagi með ýmsum hætti, eins og flestir Svíar vilja, og að vilja einfaldlega loka á þá, eins og Svíþjóðardemókratanir vilja. Ef þeir gætu myndu þeir vilja stöðva streymi innflytjenda til Svíþjóðar. Þeir eru auðvitað ekki í aðstöðu til þess. Þá vilja þeir draga úr þeim fjölda flóttamanna sem Svíar taka við.“

Gunnhildur hugsar sig um og bætir svo við:

„Hinn almenni Svíi kærir sig ekki um þessa mynd af Svíþjóð að hér sé nýnasískur flokkur sem nýtur svona mikils fylgis. Ég er alveg viss um að stóru flokkarnir og almenningur yfir höfuð munu grípa til einhverra aðgerða.“

Fái umhverfisráðuneytið 

- Hvernig spáirðu til um stjórnarmyndunarviðræður? 

„Eins og staðan er núna getur ríkisstjórnin haldið velli sem minnihlutaríkisstjórn. Ég myndi halda að Umhverfisflokkurinn gangi til liðs við ríkisstjórnina. Þótt þeir hafi ekki tilheyrt hægriblokkinni áður eiga þeir samleið með Moderaterna í ýmsum málum, svo sem í menntamálum og þeirri stefnu að létta skattaálögur á smærri fyrirtæki svo eitthvað sé nefnt.

Umhverfisflokkurinn verður hins vegar að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Ef þeir fara í samstarf við Reinfeldt [forsætisráðherra] geri ég ráð fyrir að þeir fái umhverfisráðuneytið.“

Ekki jafn grænir og Jafnaðarmenn

Spurð hvort sænskir hægrimenn séu ekki grænir í stefnu sinni svarar Gunnhildur Lilý því til að munur sé á flokki Reinfeldts og Jafnaðarmannaflokknum þegar umhverfismálin eru annars vegar. Þessi munur hafi til dæmis komið í ljós í mismunandi áherslum Svía á vettvangi Evrópusambandsins eftir að Reinfeldt og flokkur hans komst til valda.

„Svíar eru ekki eins metnaðarfullir í umhverfismálum og þeir voru þegar Jafnaðarmannaflokkurinnvar við völd. Ég tel samt sem áður að Umhverfisflokkurinn muni ganga til samstarfs við Reinfeldt vegna þess að þeir vilja heldur ekki vilja hafa það á samviskunni að einhverjum dytti í hug að fara í samstarf við Svíþjóðardemókratanna,“ segir Gunnhildur Lilý Magnúsdóttir stjórnmálafræðingur.

Dr. Gunnhildur Lilý Magnúsdottir, lektor í stjórnmálafræði við Háskólann í …
Dr. Gunnhildur Lilý Magnúsdottir, lektor í stjórnmálafræði við Háskólann í Malmö.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert