„Þetta er sama þróun og í Danmörku, Hollandi og Þýskalandi. Það er mikið af innflytjendum og þeir sem eru atvinnulausir í löndunum eru uggandi um sinn hag og þetta breiðist út,“ segir Svavar Gestsson, fyrrverandi sendiherra í Stokkhólmi, aðspurður um orsakir kosningasigurs Svíþjóðardemókrata.
„Það virðist varla nokkur þjóð ráða við að svara þessu með þeim hætti að sátt sé um.“
- Telurðu að Svíarnir hafi sýnt andvaraleysi í þessum málum? Hefðu þeir átt að grípa til aðgerða fyrr til að stemma stigu við fordómum og stjórnmálahreyfingum af þessum toga?
„Í raun og veru má segja að þessi tegund af stjórnmálaöflum hafi einna síðast náð fótfestu í Svíþjóð. Svíar hafa verið þjóðin sem hefur sagt „Við erum ekki með neitt svona. Við erum öðruvísi. Við tökum skynsamlega á þessu.“ Þannig að ég held að þetta hafi verið það sem maður segir á vondri íslensku tímaspursmál hvenær þessi tegund af stjórnmálaafli nam land í Svíþjóð.“
- Hvernig heldurðu að sænska stjórnin muni bregðast við í framhaldinu?
„Það er flókið að svara því enda er hún völt í sessi. Stóra fréttin eftir sænsku kosningarnar er sú að meirihlutastjórn Reinfeldts missir meirihlutann. Þannig að það er ekki gott að segja til hvaða ráða hún grípur á þessu sviði frekar en öðrum. Ég treysti mér því ekki til að spá um það.“
Tími Sahlin á enda?
- Annað sem vekur athygli er staða Jafnaðarmannaflokksins. Af hverju hefur hann ekki náð vopnum sínum?
„Þeir hafa verið stærsti flokkurinn í sænskum stjórnmálum í marga áratugi og eru það enn. Það má segja að það sé viss sigur fyrir þá að halda því forystuhlutverki í sænskum stjórnmálum þrátt fyrir allt. Þetta vinstrabandalag kemur heillegt út úr kosningabaráttunni. Það er hins vegar ljóst að forysta jafnaðarmanna hefur ekki náð sér á strik eftir Göran Person.“
- Er eftirmaður hans, Mona Sahlin, ekki nógu öflugur leiðtogi?
„Ég tel hana vera alveg geysilega hæfan stjórnmálamann og er þeirrar skoðunar að hún hafi verið langbesta valið sem þeir áttu á sínum tíma. Hún er bæði með mikla pólitíska reynslu og er afskaplega vel að sér í öllu sem lýtur að pólitík jafnaðarmanna og verkalýðshreyfingarinnar.
Þannig að miðað við það sem jafnaðarmenn áttu kost var hún langöflugasti stjórnmálamaðurinn. Hinir voru hreinlega of miklir bírókratar. Það er hins vegar ekki þar með sagt að hún sé fullkomin. Nú fara jafnaðarmenn sennilega að leita sér að nýjum leiðtoga.“
Stærsta mál aldarinnar
Aðspurður hvort hann telji að stjórnmálahreyfing á borð við Svíþjóðardemókrata muni nái fótfestu á Íslandi telur Svavar það ólíklegt. Aðstæður séu um margt öðruvísi hér á landi og „andrúmsloftið ekki jafn hatrammt“.
„Við getum vonandi treyst því að stjórnmálaflokkarnir taki á þessum vandamálum með myndugum hætti.“
Hann setur svo innflytjendamálin í stærra samhengi og bendir á að Suður-Evrópuríkin Ítalía og Spánn, svo dæmi sé tekið, eigi í mesta basli með straum innflytjenda.
Það sama megi segja um Bandaríkin sem hafi reist stóran múr til að stemma stigu við straumi innflytjenda frá Mexíkó norður yfir landamærin.
„Ef maður horfir inn í þessa öld, næstu 40 til 50 ár, að þá verður tilflutningur á fólki á hnettinum aðalmál stjórnmálanna. Frá fátæku svæðunum til ríku svæðanna ekki síst í Evrópu því héðan er stutt í fátæktina yfir Miðjarðarhafið og austur eftir álfunni."