SUS vill einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur

mbl.is/ÞÖK

Ungir sjálfstæðismenn telja æskilegt að auka hlutafé Orkuveitu Reykjavíkur og bjóða það hlutafé einkaaðilum til kaupa í opnu ferli. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem SUS hefur sent á fjölmiðla.

Telja einkavæðingu koma í stað gjaldskrárhækkana

„Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hafnar þeirri hugmyndafræði sem meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar í Reykjavík beitir á íbúa höfuðborgarsvæðisins. Að velta eigin vanda yfir á aðra sýnir í raun sama ráðleysi og sést hefur í fjármálum ríkisins. Gjaldskrárhækkanir Orkuveitunnar eru ekkert annað en dulbúin skattheimta.

Ungir sjálfstæðismenn telja að rekstur Orkuveitunnar sl. rúman áratug sanni það sem ungir sjálfstæðismenn hafa áður sagt; samkeppnis- og áhætturekstur er betur kominn í höndum einkaaðila en stjórnmálamanna, sem horfa í besta falli 4 ár fram í tímann.

Mislukkaðar fjárfestingar fyrirtækisins, sem hafa ekkert með orkuveitu á höfuðborgarsvæðinu að gera, hafa kostað skattgreiðendur gríðarlegar fjárhæðir.

Ungir sjálfstæðismenn telja æskilegt að auka hlutafé Orkuveitu Reykjavíkur og bjóða það hlutafé einkaaðilum til kaupa í opnu ferli. Slíkt getur komið í staðinn fyrir þá tugi prósenta hækkun á gjaldskrá fyrirtækisins sem boðuð hefur verið, auk þess sem slíkt gæti lækkað skuldir fyrirtækisins og fjármagnað frekari virkjanaframkvæmdir og atvinnuuppbyggingu.

Að sama skapi er eðlilegt að kröfuhöfum Orkuveitunnar verði boðið að breyta skuldum í hlutafé, enda er ljóst að gjaldskrárhækkanir og niðurskurður í rekstri mun lítið breyta gífurlegri skuldsetningu félagsins", segir í tilkynningu frá SUS.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka