Fulltrúi Framsóknarflokksins í þingmannanefnd sem fjallaði um niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og ráðherraábyrgð segir að svo virðist sem algjör umskipti hafi orðið í Samfylkingunni síðustu daga. Flokkurinn hafi farið á taugum í málinu.
„Viðsnúningurinn er algjör,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fulltrúi Framsóknarflokksins.
„Þegar skýrsla nefndarinnar kom fram lofaði forsætisráðherra sem og aðrir þingmenn vinnubrögð nefndarinnar. Reyndar gekk forsætisráðherra svo langt að halda því fram að skýrslan og ákærurnar væru fagnaðarefni enda myndu þær slá á reiði almennings. Til þess hefði verið lagt upp í þá för sem nefndarstarfið var,“ segir Sigurður Ingi en sagðist ekki kannast við að það hafi verið verkefni nefndarinnar.
Á síðustu dögum virðast hins vegar hafa orðið algjör umskipti í Samfylkingunni. „Flokkurinn er farinn á taugum og nú kemur forsætisráðherra með það útspil að yfirgnæfandi líkur séu á að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, verði sýknuð fyrir landsdómi fari mál hennar þangað. Um leið lýsir hún fullkomnu vantrausti á störf nefndarinnar og telur þau ófagleg. Með þessum orðum vill Jóhanna greinilega lægja öldurnar og smala saman köttunum í eigin flokki um leið hún fórnar Magnúsi Orra (Schram) og Oddnýju (G. Harðardóttur, fulltrúum Samfylkingarinnar í þingmannanefndinni) eins og peðum fyrir drottningu,“ segir Sigurður Ingi.
Hann vekur athygli á að traust víðtæk samstaða hafi á sínum tíma verið um skipan og vinnubrögð þingmannanefndarinnar og að hún skyldi njóta sjálfstæðis. Undarlegt sé því að forsætisráðherra sem æðsti yfirmaður framkvæmdavaldsins skuli velja það að gengisfella löggjafarvaldið með þeim hætti sem nú sjáist.