Ef fram heldur sem horfir mun læknaskortur verða sífellt alvarlegra vandamál á Íslandi, að sögn Þórarins Ingólfssonar, varaformanns Félags íslenskra heimilislækna. Þórarinn segir þegar farið að bera á því að umsækjendur um stöður sérfræðinga uppfylli ekki hæfniskröfur.
„Við höfum verulegar áhyggjur af þessu. Hópur lækna starfar bæði hér heima og erlendis. Við höfum áhyggjur af unga fólkinu sem á að fara í sérnám og að það séu ekki til námsstöður fyrir það á Íslandi. Við höfum áhyggjur af því að ungir læknar staldri ekki við.“
- Hefur ástandið verið að versna?
„Já. Það eru veruleg vandræði hér í Reykjavík. Það eru ekki hæfir umsækjendur í stöður sem eru auglýstar. Ég tala nú ekki um ástandið úti á landi,“ segir Þórarinn og á við stöður fyrir sérfræðimenntaða lækna.
Alltof fáir læknar á höfuðborgarsvæðinu
- Er læknaskortur á höfuðborgarsvæðinu?
„Það eru alltof fáir læknar á höfuðborgarsvæðinu til að sinna þeim verkefnum sem þarf að sinna. Það er læknaskortur nú þegar og ekki útlit fyrir að það verði veitt fé í fleiri stöður eins og ástandið er.“
- Er eitthvað sem bendir til að þessi þróun muni snúast við?
„Ég sé ekkert sem bendir til þess. Nýr heilbrigðisráðherra [Guðbjartur Hannesson] hefur reyndar dregið í land með hugmyndir um sameiningu heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, hugmyndir sem við mótmæltum harðlega.
Það átti að fækka þeim og skapa stórar stöðvar. Það mál hefur nú verið sett á ís tímabundið. Menn eru að leita annarra leiða í hagræðingunni,“ segir Þórarinn sem er sérfræðingur í heimilislækningum.