Þingmenn Hreyfingarinnar hafa óskað eftir því við þingmannanefndina sem fjallaði um hvort ákæra ætti fyrrum ráðherra að trúnaðargögn nefndarinnar yrðu sett á netið. Nefndin hafði hafnað beiðni Birgittu Jónsdóttur þar að lútandi á föstudag.
„Á fundi þingamannanefndarinnar, s.l. föstudag lagði Birgitta Jónsdóttir til að trúnaðargögn þingmannanefndarinnar yrðu sett á netið svo almenningur gæti kynnt sér þau.
Því var hafnað á forsendu trúnaðar við fræðimenn og sérfræðinga. Við, þingmenn Hreyfingarinnar, viljum hér með ítreka tillöguna og förum þess á leit við nefndina að hún beiti sér fyrir því að umrædd gögn verði gerð opinber með leyfi þeirra fræðimanna og sérfræðinga sem um ræðir.
Það er mikilvægt vegna þeirrar umræðu sem hefur skapast inni í þingsölum og varpað tortryggni á störf nefndarinnar að sem flestir hafi aðgengi að þessum gögnum til að sýna fram á að ekkert er að finna í þessum gögnum sem gefur tilefni til tortryggni á heilindi þeirrar vinnu sem þar fór fram," segir í bréfi sem þingmenn Hreyfingarinnar hafa sent til nefndarinnar.