Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hafa ákveðið að arðgreiðslur frá fyrirtækinu falli tímabundið niður. Fram kemur í tilkynningu að í einróma bókun á fundi eigenda segi að alla jafna sé eðlilegt að gera kröfur um arð af OR enda hafi það verið gert frá stofnun fyrirtækisins óháð stöðu þess.
Þá segir að síðustu tvö ár hafi arðgreiðslur verið lækkaðar um helming og við núverandi aðstæður í rekstri OR sé talin ástæða til að ganga lengra og fella þær alveg niður tímabundið.
Niðurstaða eigendanna, sem eru Reykjavíkurborg (94%), Akraneskaupstaður (5%) og Borgarbyggð (1%), hafi ver ð kynnt á stjórnarfundi OR í dag.
Fram kemur að stjórn OR hafi ákveðið í síðasta mánuði að grípa til róttækra aðgerða í rekstri fyrirtækisins. Tekjur þess verði auknar með hækkun gjaldskrár, ákveðið hafi verið að selja eignir og því hafi verið beint til eigenda að falla frá arðgreiðslum, sem eigendur hafi nú orðið við.
Umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir
Jafnframt segir að stjórnin hafi einnig ákveðið að fela forstjóra OR að ráðast í umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir. Markmið þeirra sé 2 milljarða hagræðing í rekstri OR. Reiknað sé með að sparnaðarverkefni, sem ráðist hafi verið í frá upphafi árs 2009, verði búin að skila 900 milljónum króna nú í árslok. Auk þess að hafa átt fund með trúnaðarmönnum starfsfólks, ljúki í þessari viku röð 20 funda, sem Helgi Þór Ingason forstjóri eigi með öllu starfsfólki OR, í því skyni að finna hagræðingarleiðir. Fram hafi komið að allt sé undir í þeim aðgerðum, sem standa yfir.
Á fundi stjórnar OR í dag var framgangur ákvarðana stjórnar kynntur. Varðandi eignasölu var lögð fram tillaga um verklagsreglur við sölu eigna og eiga þær að tryggja jafnræði og gegnsæi við sölu auk þess að hámarksverð fáist fyrir þær. Tillagan gerir ráð fyrir að stjórn OR samþykki fyrirfram hvaða eignir verða seldar auk þess sem endanlegir samningar koma til afgreiðslu stjórnar. Staða hagræðingar innan OR var einnig kynnt og af því tilefni var einróma samþykkt svohljóðandi bókun:
„Í ljósi minnisblaðs og greinargerðar forstjóra um verklag við hagræðingu innan OR, lýsir stjórn OR ánægju með það víðtæka samráð og samstarf sem viðhaft er og lýsir stuðningi við áherslur forstjóra. Lögð er áhersla á að við aðgerðirnar sé gætt að kjarnaþjónustu fyrirtækisins og einföldun í skipulagi þess. Stjórn leggur traust sitt á að forstjóri og aðrir stjórnendur OR, sem gleggst þekkja til rekstursins, láti sanngirni, jafnrétti og önnur málefnaleg sjónarmið ráða för. Neyðist fyrirtækið til að grípa til svo sársaukafullra aðgerða að segja upp starfsfólki er brýnt að lögum sé fylgt í hvívetna og að gripið verði til mildandi mótvægisaðgerða.“