Hafnar sérstakri rannsókn

Frá fundi þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og …
Frá fundi þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og ráðherraábyrgð. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Fulltrúi Samfylkingarinnar í þingmannanefnd um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og ráðherraábyrgð tekur það fram að hann líti ekki á það sem persónulegan ósigur þegar aðrir þingmenn lýsi annarri skoðun. Hann hafnar því að nefndin hefði átt að standa fyrir sérstakri rannsókn á málinu.

Magnús Orri Schram mælti fyrir tillögu tveggja fulltrúa Samfylkingarinnar í þingmannanefndinni nú síðdegis. Þeir leggja til að höfðað verði sakamál fyrir landsdómi gegn þremur fyrrverandi ráðherrum í ríkisstjórninni, ekki fjórum eins og meirihlutinn hefur flutt tillögu um. 

Magnús Orri flutti rök þeirra fyrir því að ákæra ekki Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, og vísaði til atvikalýsingar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem fram kemur að ráðherrann fyrrverandi var ekki hafður með í ráðum. Magnús Orri sagði að af þeim ástæðum hafi fyrrverandi viðskiptaráðherra ekki haft sömu vitund um hættuna og aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni.

Magnús Orri ræddi gagnrýni á feril málsins og á landsdómslögin, sem meðal annars kom fram í ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, á Alþingi í gær. Benti Magnús Orri á það að allir þingmenn hafi verið sammála um ferli málsins í upphafi og skipun þingmannanefndarinnar og þá hafi engin umræða verið um það að lög um ráðherraábyrgð og landsdóm væru óskýr. Hefði þingmönnum verið í lófa lagið að breyta þessum lögum, áður en nefndin var skipuð, ef þeir hefðu talið ástæðu til þess.

Öllum þingmönnum hafi átt að vera það ljóst að nefndin gæti komist að þeirri niðurstöðu að kalla saman landsdóm. 

Lýsti Magnús Orri þeirri skoðun sinni að við afgreiðslu þessa máls ætti ekki að fara að flokkslínum. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, sagði frá því í andsvari við ræðu þingmannsins að þingflokkurinn hefði ákveðið að hver og einn þingmaður í hans röðum myndi eiga það við sannfæringu sína hvernig hann eða hún greiddi atkvæði í þessu máli. Engin flokkslína væri í Samfylkingunni.

Magnús Orri sagði að umræddum fyrrverandi ráðherrum hefði mátt vera það ljóst að nefndin væri ekki bundin af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og að þingmannanefndin væri að íhuga ábyrgð þeirra samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð. Þeim hafi verið gert kleift að koma andmælum sínum á framfæri og mannréttindum þeirra hafi verið fullnægt með þeim hætti.

Þá hafnaði Magnús Orri því að nefndin hefði átt að framkvæma sérstaka rannsókn áður en hún gerði tillögur sínar. Sagði að rannsóknarnefnd Alþingis hafi skilað ítarlegri og efnismikilli skýrslu þar sem rakið væri ítarlega allt sem markvert gerðist á árinu 2007 og á árinu 2008 fram að hruni. Taldi hann það einkennilegan málflutning að segja að ekki dygði að byggja á þeirri atvikalýsingu.

„Ef Alþingi telur að leggja beri í aðra rannsókn, vil ég spyrja: Hvað á sú rannsókn að leiða í ljós, sem ekki kom í ljós við rannsókn rannsóknarnefndar Alþingis?,“ sagði Magnús Orri Schram í ræðu sinni.

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar.
Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/ÞÖK
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert