Leifar af fellibylnum Igor hafa gert usla á Nýfundnalandi í Kanada. Þótt Igor komi ekki til Íslands mun hann opna leið fyrir milt loft úr suðvestri um helgina og fram í næstu viku, ef að líkum lætur.
Stormur og mikil úrkoma var í Nýfundnalandi í kvöld, þegar leifar fellibylsins bárust þangað af Atlantshafi. Íbúar þorpa voru fluttir í burtu. Eins manns er saknað eftir að hann sogaðist með flóðinu út á haf.
Einar Sveinbjörnsson segir á veðurbloggi sínu að útlit sé fyrir að það blási einnig hressilega syðst á Grænlandi á morgun en þá verði lægðin farin að grynnast.
Einar segir að hér á landi verði nánast engin bein áhrif af Igor. Þetta djúp lægð opni þó fyrir streymi af mildu lofti úr suðvestri, um helgina og eitthvað framan af næstu viku, ef að líkum lætur.