Róbert Trausti Árnason,fyrrum ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, forsetaritari og núverandi starfsmaður Samtaka atvinnulífssins í Brussel, segir í pistli sem hann ritar í dag á Pressuna að það blasi við að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sé farinn að skilja heiminn.
„Allar götur frá embættistöku forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar,
sumarið 1996 hef ég veitt því sérstaka eftirtekt, hvað forsetinn lætur
feikimargt ógert.
Miklu frekar en að ég veiti því sérstaka eftirtekt, hvað það er sem hann gerir. Einkum á seinni árum.
Ólafur
Ragnar hefur til dæmis ekki enn komið í opinbera heimsókn til
alþjóðastofnana hér í Brussel til að kynna sér heimsmálin. Kínverjar
eru hins vegar hér, sem mý á mykjuskán. Þeir skilja heiminn. Enda vel að
sér um öll heimsmál.
Vera má að þarna fylgi Ólafur Ragnar óvart
því viðhorfi fyrsta forseta Íslands. Sá forseti, Sveinn Björnsson,
sagði að hann vildi frekar, að menn spyrðu að því hvers vegna forsetinn
væri ekki viðstaddur þetta eða hitt, heldur en að menn spyrðu; “Hvað er
nú forsetinn að vilja hér?“
Eða þá að Ólafur Ragnar fylgir
þeirri sannfæringu fjórða forseta Íslands, frú Vigdísar. Þeirri
sannfæringu, að forsetinn mætti ekki undir nokkrum kringumstæðum
heimsækja alþjóðastofnanir í Brussel. „ Af því, ráðuneytisstjóri góður,
að þjóðin mín myndi ekki skilja það.“ Þegar öllu er á botninn hvolft þá
er það vissulega sjónarmið.
En Ólafur Ragnar virðist hafa fengið
brennandi áhuga á nýjustu heimsmálunum austur í Kína –
Norðurskautsmálunum. Enda Kínverjar vel að sér um öll heimsmál. Þeir
skilja heiminn. Allavega fannst mér ég heyra það á honum í ágætum
sunnudagsþætti á Útvarp Saga s.l. sunnudag.
Ólafur Ragnar talaði þarna eins og þegar hann er upp á sitt besta. Og þá er hann harla góður.
Mér
er sagt að viðurkenning á staðreyndum sé upphaf allrar visku. Lítið á
landakortið. Ísland er þar sem það er. Það breytir enginn landafræðinni.
Ný-raunsæisstefna Evrópusambandsins í málefnum Íslands og
Norðurskautsins er tilefni þess að enn einn evrópskur þjóðhöfðingi,
forseti Íslands, hefur nú kynnt raunsætt mat sitt á staðreyndum um
þróun heimsmála í okkar heimshluta.
Ég er mjög hissa á þessu, því
ég hélt að forsetinn hefði ekki nokkurn áhuga á þessum málum. Að
Norðurheimsskautið hefði einfaldlega ekki nóg seiðmagn fyrir forsetann.
Gott að mér skjátlast. Hér er sennilega orðin breyting á viðhorfum
forsetans, og ef svo er, þá ber að fagna því.
Enda er forseti
Ísland, Ólafur Ragnar Grímsson, þar með orðinn öflugur liðsmaður í
þeirri viðleitni atvinnulífsins á Íslandi að nýta öll tækifærin, sem
siglingar um þetta „nýja Miðjarðarhaf“ bjóða upp á. Ásamt þeirri sókn og
atvinnusköpun sem byggir á ónýttum auðlindum á norðurslóðum.
Það blasir við að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, er byrjaður að skilja heiminn," segir í pistli Róberts Trausta.