Ósammála í grundvallaratriðum

/Bjarni Benediktsson.
/Bjarni Benediktsson. mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist á Alþingi í dag vera ósammála í grundvallaratriðum þeirri þingsályktunartillögu um að ákæra beri fjóra fyrrverandi ráðherra fyrir landsdómi. Því telji hann að hafna beri tillögunni.

Umræða hófst að nýju á Alþingi í dag um tillögu meirihluta þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Vill meirihlutinn að Alþingi gefi út ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, Árna M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, og Björgvin G. Sigurðssyni, fyrrverandi viðskiptaráðherra. Mælt var fyrir tillögunni á föstudag og umræðan hélt síðan áfram í gær.

Bjarni sagði, að ekkert ákæruatriði í þingsályktunartillögunni uppfyllti kröfur um, að meiri líkur séu á því en minni, að sakfelling fáist fyrir dómi. Þá væru lög um landsdóm og ráðherraábyrgð neyðarúrræði þingsins og þeim beri að beita af ýtrustu varkárni.  Loks væri vafa undirorpið hvort lögin uppfylli nútímakröfur um refsirétt og mannréttindi.

„Nái þessi tillaga fram að ganga eru öll grið rofin," sagði Bjarni og bætti við að búast mætti við að landsdómur yrði kallaður reglulega saman. 

Það vakti athygli að enginn ráðherra var í þingsalnum þegar þingfundur hófst en ríkisstjórnarfundur, sem hófst í morgun, dróst á langinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka