Á fundi forsætisnefndar Reykjavíkurborgar þann 16. september sl., voru kjör fyrstu varaborgarfulltrúa bætt, líkt og fram kom í fréttum mbl.is í gær. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg í dag kemur fram að kjör þeirra verða því eins og þau hafa verið í fjölda ára, þ.e. 70% af launum borgarfulltrúa eða um 283 þúsund krónur.
„Í desember 2009 samþykkti forsætisnefnd að fella niður þessi kjör fyrstu varaborgarfulltrúa, en jafnframt endurskoða launakerfi borgarfulltrúa og gera tillögur að breytingum er taki gildi í upphafi nýs kjörtímabils. Vinna við endurskoðun launakerfisins var aldrei sett af stað.
Þegar nýr meirihluti tók við lá hvorki fyrir endurskoðun né breyting á starfsskyldum fyrstu varaborgarfulltrúa. Því lögðu fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar fram tillögu um að færa launin aftur í sama horf. Tillagan var samþykkt á fundi nefndarinnar með stuðningi VG. Með þessu er verið að leiðrétta kjör fyrstu varaborgarfulltrúa og setja þau í meira samhengi við vinnuframlag," segir í tilkynningu sem Reykjavíkurborg hefur sent frá sér.