Svarar ekki fyrir fjárhaginn

Jón Gnarr borgarstjóri á fundi borgarstjórnar.
Jón Gnarr borgarstjóri á fundi borgarstjórnar. mbl.is/Golli

„Það er fordæmalaust, leyfi ég mér að fullyrða, að borgarstjóri sem er æðsti embættismaður borgarinnar, taki ekki til máls þegar hann er inntur svara,“ segir Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG. Minnihlutinn spurði hann um undirbúning fjárhagsáætlunar á fundi borgarstjórnar í dag.

Aðgerðaráætlun og forgangsröðun í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var til umræðu í borgarstjórn í dag, að beiðni borgarfulltrúa minnihlutans. Sóley Tómasdóttir segir að þótt langt sé liðið á haust hafi meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar ekki komið fram með neinar pólitískar áherslur og þrátt fyrir margítrekaðar spurningar hafi engin svör fengist um það hvort eða hvernig ætti að forgangsraða. 

Því væri ósvarað grundvallarspurningum um gjaldskrárhækkanir, skattahækkanir, uppsagnir eða þjónustuskerðingu.

Sóley vekur athygli á því að borgarstjóri beri ábyrgð á undirbúningi fjárhagsáætlunar og leggi hana fram, þegar þar að komi. Jón Gnarr hafi hins vegar ekki tekið til máls við umræðuna og ekki svarað spurningum sem til hans var beint varðandi þessu stóru mál. 

„Þetta er alvarlegt og vekur spurningar um það hvað koma skal,“ segir Sóley.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert