„Ég tel að þessi tilraun hafi mistekist," sagði Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, um þá ákvörðun Alþingis að fela sérstakri þingmannanefnd að fara yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og mótaviðbrögð Alþingis við niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar.
Vísaði hann m.a. til þess, að niðurstaða nefndarinnar um ábyrgð fyrrverandi ráðherra hefði að mestu farið eftir pólitískum línum.
Sagðist Skúli harma að lög um landsdóm og ráðherraábyrgð hefðu ekki verið endurskoðuð eins og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefði ítrekað lagt til.
Skúli sagðist ekki hafa enn komist að niðurstöðu varðandi þær tillögur sem liggja fyrir Alþingi um málshöfðun gegn fyrrverandi ráðherrum en hann myndi gera grein fyrir afstöðu sinni við aðra umræðu um tillögunar.
Skúli sagði að fleiri leiðir stæðu Alþingi til boða og meðal annars hefði verið bent á það í fjölmiðlum, að Alþingi gæti flutt og tekið til afgreiðslu sérstaka ályktun þar sem kveðið yrði á um ábyrgð einstakra ráðherra, ekki bara þeirra sem gegndu embættum frá árinu 2007 heldur einnig þeim sem gegndu ráðherraembættum á tímabilinu frá 2002 til 2006 þegar þeir ráðherrar voru á vettvangi, sem báru meðal annars ábyrgð á einkavæðingu bankanna og höfðu jafnframt sannanlega upplýsingar vorið 2006 um að bankakerfið væri komið að fótum fram en gripu ekki til aðgerða.
Vísaði Skúli til frásagnar í Umsátrinu, bók Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, af skyndifundi, sem haldinn var sunnudagskvöldið 26. mars 2006 á heimili Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, með Halldóri Ásgrímssyni, forsætisráðherra, og bankastjórum viðskiptabankanna þriggja.
Bankastjórarnir höfðu þá óskað eftir verulegri aðstoð ríkisins til að mæta skyndilegum greiðsluvanda bankanna tengdum skammtímalánum. Óttuðust bankastjórarnir að daginn eftir yrði lánunum sagt upp og bankarnir myndu hrynja. Niðurstaðan var sú að bíða átekta og á endanum gerðist ekkert.
Skúli sagði að á þessum tíma hefði, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis, enn verið tækifæri til að bregðast við ofvexti bankakerfisins og afstýra bankahruninu. Stjórnendur Seðlabankans hefðu hins vegar kosið að aðhafst ekki, ráðherrar í ríkisstjórninni á þeim tíma aðhöfðust ekki og það sem verra var, að upplýsingunum um tvísýna stöðu bankakerfisins var haldið kyrfilega leyndum í stjórnkerfinu, gagnvart Alþingi og þjóðinni.
„Nú spyr ég: Er verjandi fyrir Alþingi að líta framhjá þessum mikilvægu staðreyndum? Verðum við ekki að horfa á heildarmyndina og taka til greina ábyrgð þeirra ráðamanna, sem sannanlega báru mesta ábyrgð á viðbrögðum eða viðbragðaleysi stjórnvalda í því hörmungarfári sem yfir okkur dundi, að undanskyldum auðvitað stjórnendum bankanna sem við treystum auðvitað að fái makleg málagjöld fyrir dómstólum?" sagði Skúli.