Atkvæðagreiðsla um hvert málið fer

Fyrri umræðu um tillögurnar lauk í gærkvöldi.
Fyrri umræðu um tillögurnar lauk í gærkvöldi. Árni Sæberg

Atkvæði verða greidd á Alþingi kl. 10:30 um til hvaða nefndar þingsályktunartillögur um málshöfðun gegn ráðherrum fara. Sjálfstæðismenn vilja að tillögurnar fari til allsherjarnefndar, en Atli Gíslason leggur til að tillögurnar fari aftur til þingmannanefndarinnar sem hefur haft með þetta mál að gera.

Fyrri umræðu um tillögurnar lauk um kl. 20 í gærkvöldi. Ragnheiður Elín Árnadóttir, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, lagði til að tillögunum yrði vísað til allsherjarnefndar. Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, sagði að hann liti á slíka tillögu sem algert vantraust á störf nefndarinnar. Hann sagði að eðlilegt væri að tillögunum yrði vísað til þingmannanefndarinnar.

Venjulega er samstaða milli þingmanna um hvaða nefnd taki mál til skoðunar milli umræðna. Að þessu sinni er ágreiningur um málið. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar getur skipt verulegu máli um hvað verður um tillögurnar því nefndirnar ráða því hvað þær taka langan tíma til að fjalla um einstök mál. Reikna má með að allsherjarnefnd þurfi lengri tíma en þingmannanefndin til að fara yfir málið því hún hefur ekkert skoðað það fram að þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka