Aukin samvinna við Rússa

Össur Skarphéðinsson utanríksiráðherra hyggst hitta rússenska starfsbróður sinn síðar á …
Össur Skarphéðinsson utanríksiráðherra hyggst hitta rússenska starfsbróður sinn síðar á árinu. mbl.is/RAX

NATO og Rússar eru ekki andstæðingar heldur hafa sömu hagsmuni í mörgum veigamiklum atriðum. Þetta kom fram í ræðu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra á fundi í NATO-Rússlandsráðinu í New York í morgun en þar lagði hann mikla áherslu á aukna samvinnu Rússa og NATO.

Ráðherra sagði að það myndi treysta öryggi og stöðugleika í Evrópu, ekki síður Rússa, og bandalagsríkja almennt, að stórefla samvinnu Atlantshafsbandalagsins og Rússlands.

„Íslendingar líta á Rússland sem sterka en friðsamlega nágranna sem við viljum í auknum mæli vinna með á sama grunni og öðrum nágrannaþjóðum í okkar heimshluta, ekki síst á sviði málefna sem tengjast norðurslóðum,“ sagði utanríkisráðherra. Hann sagði Íslendinga leggja meiri áherslu á samvinnu við Rússa en áður, enda væru nú sameiginlegir hagsmunir víðtækari.  

Össur fagnaði áherslum Anders Fogh Rassmussen framkvæmdastjóra NATO, á aukna samvinnu við Rússa, og kvað hann hafa fullan stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar í því efni. Ráðherra tók undir með þeim utanríkisráðherrum sem vildu að samskipti Rússlands og yrðu byggð upp til framtíðar þar sem litið væri til þess sem sameinaði fremur en þess sem skilið hefði að.

Næsti fundur í NATO-Rússlandsráðinu er fyrirhugaður í tengslum við leiðtogafund NATO í Lissabon í Portúgal í nóvember en í því sitja öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og Rússland.

Síðar á árinu er fyrirhugaður fundur með utanríkisráðherra og Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands þar sem aukið samstarf á ýmsum sviðum verður til umræðu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert