Boðað verður aftur til þingfundar á Alþingi þegar niðurstaða þingmannanefndarinnar liggur fyrir. Nefndin fer nú yfir þingsályktunartillögurnar um málshöfðun gegn fyrrverandi ráðherrum á milli fyrri og síðari umræðu þingsins.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, segir ekki hægt að segja til um það á þessari stundu hvenær nefndin mun skila málinu frá sér.
Auk þingsályktunartillagnanna fer nefndin yfir breytingartillögur sem komið hafa fram við skýrslu nefndarinnar. Stuttur tími er til stefnu ef ljúka á afgreiðslu málsins á þessu haustþingi, því nýtt þing kemur saman 1. október.
Ásta Ragnheiður segir að um leið og nefndin hefur lokið störfum þá hefjist þingfundir að nýju.
Fram kemur í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum, að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hafi farið fram á að þingstörf haldi áfram á meðan þingmannanefnd Alþingis fjallar um þingsályktunartillögur nefndarinnar. Þessu hafi meirihluti ríkisstjórnarflokkanna í forsætisnefnd þingsins hafnað.
Meðal þess sem Bjarni fór fram á að rætt yrði eru niðurstöður Hæstaréttar í gengistryggingarmálum, niðurstöður nefndar um Magma-málið og dómur héraðsdóms um ákvörðun umhverfisráðherra vegna virkjanamála í Neðri-Þjórsá.