Bjargfuglunum fýl, rytu, langvíu, stuttnefju og álku hefur fækkað undanfarna áratugi. Rytu og álku fækkaði minnst, eða um 16% og 18%, fýl og langvíu um 30% en stuttnefju um 44%.
Breyting á fjölda er ekki jöfn milli staða og tegunda. Fýl hefur fækkað um 30-40% frá Ingólfshöfða vestur og norður um til Húnaflóa, en virðist standa nokkurn veginn í stað þaðan austur og suður ströndina.
Rytu fækkar víða, en langmest á Langanesi (um 70%) og Suðausturlandi (80%). Hún virðist vera í jafnvægi á Snæfellsnesi og Hornströndum en hefur aukist nokkuð suðvestanlands og allvíða norðanlands, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.