Medvedev vill heimsækja Ísland

Dmitrí Medvedev, Svetlana eiginkona hans, Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar …
Dmitrí Medvedev, Svetlana eiginkona hans, Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson í Moskvu í dag.

Dmitrí Medvedev, forseti Rússlands, lýsti á fundi með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í dag, miklum áhuga á að heimsækja Ísland, m.a. til að kynna sér árangur Íslendinga við nýtingu hreinnar orku.

Fundurinn var haldinn á sumarsetri forseta Rússlands í útjaðri Moskvu en í morgun tók Ólafur Ragnar þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um Norðurslóðir sem haldin er í dag og á morgun í Moskvu.

Samvkæmt upplýsingum frá skrifstofu forseta Íslands hvatti Medvedev til þátttöku íslenskra fyrirtækja og sérfræðinga í nýtingu jarðhita í Kamtsjatka og öðrum héruðum Rússlands. Rússnesk stjórnvöld leggi nú mikla áherslu á að þróa efnahagslíf í Kamtsjatka og telji að orkuver sem nýta jarðhita geti gegnt lykilhlutverki í því sambandi.

Einnig ræddu forsetarnir um aukna samvinnu á sviði flugrekstrar en reynsla Íslendinga í flugi við erfiðar veðuraðstæður hefur komið að góðum notum í samvinnu Loftleiða, dótturfyrirtækis Icelandair, við flugfélög í Síberíu og öðrum norðursvæðum Rússlands.

Tilkynning skrifstofu forseta Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert