Þrír Íslendingar voru stöðvaðir og þeim haldið í um sex tíma á flugvelli í Ísrael í dag en þeir eru á leið með gervifætur til Gasasvæðisins á vegum félagsins Ísland-Palestína. Þeir fengu nú fyrir stundu leyfi til að fara inn á svæðið en ekki með gervifæturna með sér.
Mennirnir sem voru stöðvaðir voru fjórir saman en þrír þeirra eru stoðtækjasmiðir, tveir Íslendingar og einn Suður-Afríkumaður. Sá fjórði er fulltrúi
Félagsins Ísland-Palestína. Fóru þeir til Gasa til að smíða gervifætur á íbúa
þar og kenna smíði gervifóta með aðferð sem Össur Kristinsson hefur
þróað.
Markmiðið með heimsókninni nú er að smíða gervifætur á 17 einstaklinga. Tveir þeirra hafa misst báða fætur.
Að sögn Sveins Rúnars Haukssonar, læknis og formanns Félagsins Ísland-Palestína, sem kom til Gasa á undan hópnum, hafði allra tilskilinna leyfa verið aflað til að fá að flytja efni í gervifætur inn á Gasa og hafi það tekið yfir átta mánuði.
„Nú eru þeir stöðvaðir af engri ástæðu og haldið í fimm til sex klukkutíma. Þetta er ótrúlega ruddaleg framkoma en það er ekkert nýtt að reynt sé að hræða hjálparsamtök frá Gasa,“ segir hann.
Sveinn Rúnar segir þetta vera mikið áfall enda missi hópurinn marga daga úr starfi sínu en ætlunin hafi verið að snúa heim á miðvikudag í næstu viku.